Nánast sömu aðferð virðist beitt núna í einkavæðingu Íslandsbanka og var notuð í síðustu einkavæðinu bankanna fyrir tveimur áratugum síðan, sem tókst ekki vel. Þetta skrifar Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Skráning breyti ekki miklu fyrir vaxtakjör
Samkvæmt Ásgeiri ríkir ekki raunveruleg samkeppni á milli banka hér á landi, heldur fákeppni. Því til stuðnings nefnir hann að ekki hafi farið að bera á skárri kjörum á húsnæðislánum hérlendis fyrr en utanaðkomandi samkeppni birtist á þeim markaði frá lífeyrissjóðum. Hann bætir því við að það muni ekki breyta miklu hvort bankinn sé skráður á hlutabréfamarkaði um kjör á húsnæðislánum, nema þá helst að hærri ávöxtunarkrafa á hlutabréf í bankanum kalli mögulega á meiri vaxtamun.
Ásgeir segir einnig að síðasta einkavæðing bankanna fyrir síðasta fjármálahrun hafi ekki farið vel. Því sé það merkilegt að nánast sömu aðferð virðist beitt núna og sömu röksemdir dregnar fram fyrir sölu banka úr ríkiseigu.
Gæti leitt til minni bankastarfsemi
Í grein sinni nefnir hann einnig að nýleg aflétting Seðlabankans um kröfur um eiginfjárauka hafi leitt til þess að stjórn Íslandsbanka sé heimilt að láta meiri fjármuni renna til hluthafa, sem skapar hvata til þess að draga úr útlánastarfsemi sinni.
Þessi hvati til minni bankastarfsemi gæti haft jákvæðar afleiðingar ef of mikil útlánaaukning hafi verið bólumyndandi á húsnæðismarkaði, samkvæmt Ásgeiri Brynjari. Hins vegar gæti hann líka verið neikvæður, til dæmis ef fyrirtæki fá ekki nauðsynlega lánafyrirgreiðslu þegar hagkerfið er að taka við sér aftur.
Hægt er að lesa grein Ásgeirs í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.