Segir „stærstu hagstjórnarmistök síðasta árs“ hafa leitt af sér fasteignabólu

Mistök voru að beita bönkunum í efnahagslegum björgunaraðgerðum segir Kristrún Frostadóttir. Tilhneiging bankanna til að festa fé í steypu hafi leitt af sér fasteignabólu í stað verðmætasköpunar. Spenna á fasteignamarkaði er meiri en spár gerðu ráð fyrir.

Ráðast hefði þurft í beina innspýtingu fjármagns með markvissum hætti frá ríkinu til þeirra sem lentu í tekjustoppi að mati Kristrúnar.
Ráðast hefði þurft í beina innspýtingu fjármagns með markvissum hætti frá ríkinu til þeirra sem lentu í tekjustoppi að mati Kristrúnar.
Auglýsing

Það að beita bankakerfinu í efnahagslegum björgunaraðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins voru stærstu hagstjórnarmistök síðasta árs að mati Kristrúnar Frostadóttur, hagfræðings og oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ástandið á fasteignamarkaði svipi nú til áranna 2016-17 þegar mikil spenna var í hagkerfinu sem var fyrirsjáanlegt að mati Kristrúnar, miðað við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin í samvinnu við Seðlabankann réðst í á síðasta ári.

„Hugmyndafræðileg tregða gerði það að verkum að enginn vilji var til staðar til að ráðast strax í beina innspýtingu fjármagns, með markvissum hætti, frá ríkinu til þeirra sem lentu í tekjustoppi vegna stórkostlegs markaðsbrests – vegna náttúruhamfara og opinberra aðgerða fyrir almannahag,“ skrifar Kristrún í færslu sinni á Facebook.

Auglýsing

Hún segir að sú leið sem hafi verið farin hafi ekki verið almenningi í hag og leitt til verri niðurstöðu fyrir alla. „Með því að úthýsa ákvörðun sem er mjög pólitísk í eðli sínu, hverjum á að bjarga og hverjum ekki, til bankanna varð niðurstaðan ekki almenningi í hag. Bankarnir reyna að minnka áhættutöku sína, ekki hagkerfisins, og vilja helst festa fjármagn í öruggri steypu.“

Eðlilegt sé að skuldir aukist í svona ástandi, skrifar Kristrún, „spurningin er bara hvar sú aukning á sér stað. Það er í góðu lagi að auka skuldir ef fjármagninu er varið í hluti sem ýta undir sköpun starfa, halda fyrirtækjum og fólki á floti, skapa tækifæri.“ Sú áhersla bankanna að festa fjármagn í öruggri steypu hafi ekki skapað verðmæti heldur leitt til gífurlegra verðhækkana á fasteignamarkaði.

„Þetta er skammtímafix. Það er engin verðmætasköpun sem felst í því að borga 10 milljónum meira fyrir íbúð en þú hefðir þurft í fyrra. Þetta er eignabóla, á markaði fyrir grunnþarfir fólks. Venjulegt fólk græðir ekki á svona ástandi. Þetta hækkar bara verð á næstu eign sem þarf að kaupa, hækkar fasteignaskatta, hækkar verðbólgu og skilur stærri hóp eftir án öruggs húsnæðis að lokum,“ skrifar Kristrún.

Ástandið á fasteignamarkaðnum svipar nú til áranna 2016-17 þegar mikil spenna var í hagkerfinu. Þetta var víst...

Posted by Kristrún Frostadóttir on Wednesday, July 21, 2021

Verðhækkanir umfram spár

Tólf mánaða verðhækkun sérbýlis mælist nú 17 prósent og lækkar örlítið milli mánaða. Tólf mánaða hækkun fjölbýlis er um þessar mundir 15,3 prósent og hefur ekki verið meiri síðan í október árið 2017. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands sem fjallað er um í Hagsjá Landsbankans. „Hækkanir á íbúðaverði eru nú orðnar áþekkar því sem sást á árunum 2016 og 2017 og hefur spenna aukist nokkuð umfram það sem spár gerðu ráð fyrir,“ segir í Hagsjánni.

Þar kemur fram að ólíklegt þyki að spá um 10,5 prósenta árshækkun íbúðaverðs muni halda. Spáin gerði ráð fyrir að Seðlabankinn myndi beita þjóðhagsvarúðartækjum sínum til að slá á spennuna, líkt og hann gerði í júní þegar veðsetningarhlutfall fasteignalána var fært niður í 80 prósent, úr 85 prósentum. Samkvæmt Hagfræðideild Landsbankans þarf meira til. „Við teljum ólíklegt að sú aðgerð ein og sér dugi til þess að slá á þá miklu eftirspurn sem nú virðist ríkja.“

Ástandið „farið að valda Seðlabankanum áhyggjum“

Metfjöldi íbúða selst nú yfir ásettu verði eða um 43 prósent íbúða í sérbýli. Hlutfallið hefur ekki verið jafn hátt frá því að mælingar hófust í upphafi árs 2013. Hlutfall íbúða í fjölbýli sem selst yfir ásettu verði er 37 prósent. Þar að auki seljast um helmingi fleiri íbúðir í hverjum mánuði það sem af er árs miðað við sama tíma í fyrra.

Að mati Hagfræðideildar er þessi mikla eftirspurn afleiðing lágra vaxta og minni einkaneyslu vegna faraldursins. Hagfræðideildin hefur því gert ráð fyrir því að þessi mikla eftirspurn á húsnæðismarkaði sé tímabundin og að þegar faraldrinum muni linna breytist neysluvenjur fólks og þar með muni hægjast á eftirspurn eftir stærri og dýrari fasteignum.

Hagfræðideildin segir það ekki ólíklegt að gripið verði til frekari aðgerða. „Það virðist hins vegar alls óvíst hvenær lífið kemst endanlega í samt horf og því erfitt að segja með nákvæmni til um það hvenær neysluvenjur og eftirspurn eftir húsnæði breytast. Það er í það minnsta ljóst að ástandið er farið að valda Seðlabankanum áhyggjum og ekki ólíklegt að gripið verði til frekari aðgerða til þess að hægja á eftirspurnaraukningunni.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Árni Jensson
Viðhorfskönnun Gallup – Trúmál
Kjarninn 18. september 2021
Jón Baldvin Hannibalsson
Land tækifæranna
Kjarninn 18. september 2021
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent