Yfirvöld ættu að auka opinber útgjöld til að auka atvinnuþátttöku og framleiðslugetu þessa stundina, líkt og Bandaríkjastjórn gerði í lok seinni heimsstyrjaldar með Marshall-aðstoðinni. Stefna ætti að lágu atvinnuleysi, lágri verðbólgu og lágum skuldum í erlendri mynt í stað þess að hafa áhyggjur af skuldum hins opinbera í krónum. Þetta skrifar Ólafur Margeirsson hagfræðingur í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Samkvæmt Ólafi er engin áhætta á að skuldir ríkissjóðs í íslenskri krónu valdi rekstrarvanda hjá ríkissjóði, þar sem ríkið sjálft er útgefandi krónunnar. Hins vegar þýði það ekki að útgjöld geti aukist út í hið óendanlega, þar sem hætta sé á að þau valdi verðbólgu.
Sé útgjöldunum hins vegar rétt varið, þannig að þau valdi sem minnstri verðbólgu en dragi á sama tíma sem mest úr atvinnuleysi, geti þau aftur á móti gert mikið gagn. Sem dæmi um slík útgjöld nefnir Ólafur Marshall-aðstoðina, sem skaut stoðum undir efnahagslíf Evrópuríkja eftir síðari heimsstyrjöld og jók framleiðslugetu þeirra.
Ólafur segir opinbera fjárfestingu geta aukið atvinnuþátttöku þar sem hún auki eftirspurn eftir vinnuafli, en minnki verðbólguþrýsting til langs tíma ef fjárfestingin eykur framleiðslugetu. Hið sama megi segja um svokallaða atvinnuframboðstryggingu, sem auki framleiðslugetu hagkerfisins á sama tíma og hún eykur eftirspurn eftir vinnuafli.
„Réttu markmiðin fyrir ríkisfjármálastefnuna lúta að verðbólgu, atvinnuleysi og skuldum hans í erlendri mynt,“ skrifar Ólafur í grein sinni. „Ranga ríkisfjármálastefnan er sú sem fórnar markmiðum okkar um lága verðbólgu og lágt atvinnuleysi til þess að ná tilgangslausum markmiðum um rekstrarafgang eða ákveðið magn skulda ríkissjóðs að skuldum hans í íslenskri krónu meðtöldum.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.