Benedikt Árnason, efnahagsráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, segir það rangt að slitabú föllnu bankanna njóti afsláttar af stöðugleikaskatti ef þau greiða stöðugleikaframlag í staðinn. Þetta segir Benedikt í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins til forsætisráðherra vegna umsagnar InDefence-hópsins um frumvarp um stöðugleikaskatt. Það er mat hópsins að tryggja eigi að samningar um mætingu stöðugleikaskilyrðum skili jafn miklu í ríkiskassann og stöðugleikaskattur, en fram hefur komið að skatturinn verður slitabúunum dýrari en samningaleiðin. Um 400 milljarða króna tekjumunur er sagður vera á leiðunum.
Benedikt segir í svari til Fréttablaðsins að um sé að ræða tvær ólíkar en jafngildar aðferðir út frá hagsmunum þjóðarbúsins. Skatturinn sé einskiptis ráðstöfun sem taki mið af stöðu hvers skattaðila um næstu áramót en taki aftur á móti ekki tillit til áhættu þjóðarbúsins vegna virðisbreytinga á eignum slitabúanna til framtíðar. „Ólíkt skattinum draga stöðugleikaskilyrðin úr þessari greiðslu jöfnuðaráhættu til frambúðar,“ segir hann. Skatturinn geti gefið fleiri krónur í ríkiskassann en stöðugleikaskilyrðin dragi verulega úr lengri tíma áhættu.
InDefence-hópurinn hefur verið mjög áberandi í íslensku samfélagi undanfarin ár. Hópurinn varð fyrst til í október 2008 þegar nokkrum einstaklingum ofbauð framganga breskra stjórnvalda gagnvart Íslandi þegar landið beitti hryðjuverkarlögum gegn Íslandi vegna bankahrunsins. InDefence barðist síðan hatrammlega gegn Icesave-samningunum og stóð meðal annars fyrir undirskriftarsöfnunum gegn samþykkt þeirra.
Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður hans, voru áberandi í starfi InDefence hér á árum áður. Sigurður Hannesson, einn varaformanna framkvæmdahóps um losun hafta, sem vann tillögur um stöðugleikaskilyrði og mögulegan stöðugleikaskatt, kom einnig að starfi hópsins. Sigurður er einn nánasti efnahagsráðgjafi og trúnaðarmaður forsætisráðherra. Hann tekur auk þess virkan þátt í flokksstarfi Framsóknarflokksins.