Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar gerir stjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna að umræðuefni á Twitter í dag.
„Þingi var frestað 13. júní. Tæpar sjö vikur eru frá kosningum, þing hefur ekki verið að störfum mánuðum saman og stór mál fá ekki umræðu á þingi. Það er allt óeðlilegt við þetta ástand. Og fáránlegt að stjórnin þurfi þennan langa tíma til að endurnýja heitin í þessu hjónabandi,“ skrifar Þorbjörg.
Sigríður Á. Andersen fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra segist í svari á Twitter vera sammála Þorbjörgu. „En liggur þingmönnum eitthvað á hjarta? Þeir eru varla múlbundnir. Hvar heyrist í þeim um helstu mál, sóttvarnaaðgerðir, efnahagslífið framundan ...? Það þarf nú ekki ræðustólinn til að tjá sig,“ segir hún.
Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar tekur þátt í samræðunni á Twitter og segir að allan þennan tíma hafi formennirnir þrír hafnað samtölum við aðra flokka því viðræðurnar gangi svo vel.
Þingi var frestað 13. júní. Tæpar sjö vikur eru frá kosningum, þing hefur ekki verið að störfum mánuðum saman og stór mál fá ekki umræðu á þingi. Það er allt óeðlilegt við þetta ástand. Og fáránlegt að stjórnin þurfi þennan langa tíma til að endurnýja heitin í þessu hjónabandi.
— Þorbjörg Gunnlaugs (@obbasigga) November 11, 2021
Hæglega hefur gengið að mynda nýja ríkisstjórn en í dag eru 47 dagar frá kosningunum. Einu stjórnarmyndunarviðræðurnar sem átt hafa sér stað eru á milli þeirra þriggja flokka sem störfuðu saman í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Viðræður þeirra hafa nú staðið yfir í lengri tíma en það tók að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar 2017, þrátt fyrir að reynt hafi verið við tvö mismunandi form þá.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG benti á í samtali við Kjarnann í síðustu viku að flokkarnir þrír væru ólíkir og auðvitað ekki með sömu stefnuskrá. „Það er krefjandi verkefni að búa til stjórnarsáttmála þó að við séum búin að vinna lengi saman. Svo þekkjumst við náttúrulega miklu betur en fyrir fjórum árum. Við vitum hvar pyttirnir eru,“ sagði Katrín.