Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, segir ummæli Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem hann lét falla í sjónvarpsþættinum Eyjunni á sunnudag ekki svaraverð.
Jón Steinar tengdi það sem hann kallar aðfarirnar að Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrrverandi innanríkisráðherra vegna lekamálsins svokallaða, við gremju réttarfarsnefndar í kjölfar þess að Hanna Birna skipaði þriggja manna nefnd til að skrifa frumvarp að nýjum dómstólalögum. Jón Steinar sagði í áðurnefndu viðtali að Eiríkur Tómasson, hæstaréttardómari og formaður réttarfarsnefndar, og aðrir nefndarmenn hefðu „tryllst“ vegna þessa, þar sem þeim hafi fundist að ráðherra hefði sniðgengið þá við skipun nefndarinnar.
Hæstaréttardómarar sem öllu vilja ráða
Þá taldi Jón Steinar fráleitt að hæstaréttardómarar eigi sæti í réttarfarsnefnd Innanríkisráðuneytisins, þeirra hlutverk ætti fyrst og síðast að felast í því að sinna sínum störfum í Hæstarétti Íslands.
Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Innanríkisráðuneytisins er réttarfarsnefndin innanríkisráðherra til ráðgjafar um samningu frumvarpa og annarra reglna á sviði réttarfars, semur frumvörp og aðrar reglur að beiðni ráðherra á því sviði og í samræmi við áætlun og áherslur ráðherra, og veitir umsagnir um frumvörp og aðrar tillögur er varða réttarfar.
Eiríkur Tómasson sagði í samtali við Kjarnann í gær, að hann ætli ekki að tjá sig um ummæli Jóns Steinars. „Ég ætla ekki að fara að standa í orðahnippingum við Jón Steinar.“
Sakaði háskólaprófessor um óheilindi
Í áðurnefndu sjónvarpsviðtali fullyrti Jón Steinar að innanríkisráðherra hefði, með skipun nefndarinnar sem á að skrifa frumvarp að nýjum dómstólalögum, komið við kauninn á þeim sem öllu vilji ráða í dómsmálum landsins.
„Hanna Birna gerði það, sem að vissir menn töldu að hún ætti ekki að gera, hún skipaði nefnd einhvers fólks í það að skrifa nýtt frumvarp að dómstólalögum, og ákveðnir menn sem stjórna og vilja ráða öllu í dómsmálunum, þeir urðu reiðir. Og svo tók ég eftir því í fyrrasumar, að það voru tekin viðtöl við fólk sem tengdist þessari klíku mjög sko, meðal annars prófessor í Háskóla Íslands, sem vill svo til að er eiginkona forseta Hæstaréttar, og hvað hafði hún að segja: að ráðherrann yrði að fara frá, út af þessu máli. [...] Þetta setur að mér óhug, þetta er ekki eðlilegt.“
Aðspurður um hvort Jón Steinar hafi átt við Björgu Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, með orðum sínum kvað hann svo vera. Björg er eiginkona Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara og forseta Hæstaréttar Íslands.
Í skriflegri fyrirspurn Kjarnans til Bjargar, um hvort hún hyggist bregðast við ummælum Jóns Steinars, svaraði hún: „Sæll vertu, nei það hef ég ekki, enda ekki svara vert.“