Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir fullyrðingar sem settar eru fram í frétt Innherja, undirvefs á Vísi sem fjallar um efnahagsmál og viðskipti, þess efnis að hann hafi gert kröfur til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í skiptum fyrir að hætta við formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum, vera ósannar.
Í frétt Innherja sagði að Guðlaugur Þór Þórðarson hefði greint Bjarna frá því að hann væri tilbúinn að sleppa því að bjóða sig fram gegn honum á landsfundi Sjálfstæðisflokks um komandi helgi ef Bjarni myndi eftirláta honum fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þessi krafa á að hafa verið sett fram á fundum sem þeir áttu á fimmtudag og föstudag í síðustu viku.
Guðlaugur Þór hafnar þessi í færslu á Facebook í dag. Þar segir hann Bjarna hafa vitað af áhyggjum hans um stöðu mála í flokknum. „Ég er alltaf að hugsa um flokkinn minn og tel engan einn mann stærri en flokkinn. Það er rétt að við Bjarni hittumst, hann bauð mér í fjármálaráðuneytið á fimmtudagskvöldi og á heimili sitt á föstudaginn var. Þar ræddum við að sjálfsögðu stöðuna sem upp var komin, en öllum má vera ljóst að hann hafði áhyggjur af henni.“
Aðrar fullyrðingar í frétt Innherja séu þó rangar. „Það er allsendis ósatt að á þessum fundum hafi ég gert einhverjar kröfur til Bjarna Benediktssonar í skiptum fyrir að hætta við formannsframboð.“
Vegna fréttar Innherja á Vísi um að ég hafi gert kröfu um fjármálaráðuneytið, gegn því að hætta við að bjóða mig fram...
Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Monday, October 31, 2022
Ýmsar útgáfur af því sem fram fór á fundum fyrir helgi
Guðlaugur Þór tilkynnti í hádeginu í gær að hann myndi bjóða sig fram gegn Bjarna á komandi landsfundi. Framboðið hafði legið í loftinu í nokkra daga og spurst hafði út að mennirnir tveir hefðu fundað undir lok síðustu viku til að kanna hvort önnur lausn væri á stöðunni en formannsslagur.
Guðlaugur Þór, sem verður 55 ára í desember, hefur setið á þingi frá árinu 2003 og gegnir nú embætti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Bjarni hefur verið formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2009 og hefur í tvígang fengið mótframboð síðan þá, árið 2010 þegar Pétur Blöndal bauð sig fram og ári seinna þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir bauð sig fram gegn honum.
Bjarni hefur gefið það út að tapi hann fyrir Guðlaugi Þór í formannskjörinu ætli hann að hætta í stjórnmálum. „Ef að mínum tíma sem formanni lýkur í þessu kjöri þá er mínum tíma í stjórnmálum bara lokið. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Bjarni á Sprengisandi á Bylgjunni í gærmorgun.
Átök tveggja fylkinga
Ljóst er að tvær fylkingar innan flokksins munu takast á, fylkingar sem hafa átt í innbyrðis átökum um ítök og áhrif árum saman án þess að hafa barist á um æðstu embættin í flokknum.
Um er að ræða þá fylkingu sem fylgir Guðlaugi Þór að málum og þá sem hverfist í kringum Bjarna.
Fylking Guðlaugs Þórs hefur tekist hart á við hina þegar valið hefur verið á framboðslista flokksins í síðustu tveimur borgarstjórnarkosningum og í prófkjörinu fyrir síðustu þingkosningar. Færa má rök fyrir því að fylking Guðlaugs Þór hafi sigrað í tveimur af þeim lotum, fyrir kosningarnar 2018 og 2021, og haft ívið betur í þeirri þriðju, þegar prófkjör ákvað lista flokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.
Hingað til hefur Guðlaugur Þór valið að sýna þolinmæði í formennskumetnaði sínum og sagt út á við að hann styðji forystuna eins og hún er. Taktíkin hefur gengið út á að reyna að bíða formannstíð Bjarna Benediktssonar af sér.
En þegar Bjarni tilkynnti í ágúst að hann ætlaði að sækjast eftir áframhaldandi formennsku þurfti Guðlaugur Þór að endurmeta aðferðafræði sína. Það hefur hann nú gert og mun hann etja kappi við Bjarna um embætti formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem fer fram næstu helgi.
Landsfundurinn sá fyrsti frá því í mars 2018. Tvö þúsund landsfundarfulltrúar, víða að á landinu, eiga sæti á fundinum og hafa kosningarétt í kjöri til formanns.