Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokks lýsti yfir efasemdum um hertar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar í gærkvöldi, en ríkisstjórnin mun í dag funda um nýjar tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra, sem meðal annars fela í sér að einungis 20 manns megi koma saman og að skólar opni ekki á ný fyrr en þann 10. janúar, samkvæmt því sem fram kom í fjölmiðlum í gær, en minnisblað Þórólfs hefur ekki verið gert opinbert.
Vilhjálmur, sem er þingmaður Suðurkjördæmis, gagnrýnir í færslu sinni að þingið hafi enga aðkomu að ákvörðunartöku frekar en áður og segist „fullur efasemda um harðari aðgerðir.“ Í samtali við RÚV í morgun sagði Vilhjálmur að það væri „rík skoðun innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins“ að meira þyrfti til að rökstyðja svona harðar takmarkanir.
„Á þeim tæpum tveimur árum sem við höfum glímt við faraldurinn höfum við farið úr því að vera óbólusett þjóð yfir í eina bólusettustu þjóð jarðarinnar. Takmarkanirnar eru þó hér um bil þær sömu og er sá eftirtektarverði árangur sem við höfum náð á sviði bólusetninga þar með hafður að engu,“ skrifar þingmaðurinn.
Hann segir að þann mikla fjölda virkra smita í samfélaginu í dag skuli „lesa í því ljósi“ að mikil aðsókn hafi verið í hraðpróf undanfarið og vísar þar til frétta um að fimm prósent þjóðarinnar hafi farið í hraðpróf síðasta föstudag.
„Af þeim liggja ellefu á sjúkrahúsi, sem er umtalsvert minna en helstu sérfræðingar, þ.m.t. sóttvarnarlæknir, spáðu fyrir um fyrir skömmu,“ skrifar Vilhjálmur og bætir við að það sé „ríkisstjórnarinnar og okkar þjóðkjörinna fulltrúa að horfa til heildarhagsmuna við alla ákvörðunartöku. Enn og aftur sýnist mér að það sé ekki gert nú.“
Vilhjálmur segir að listafólk, veitinga- og gistigeirar horfi nú fram á algjört tekjuhrun, hópar sem „hafa lagt sig fram um að lifa með veirunni og hlýtt boðum yfirvalda um breyttar uppstillingar, aflögn standandi hlaðborða, neikvæð hraðpróf fyrir aðgang að viðburðum“ og fleira og að heimsfaraldurinn hafi „áhrif á heilsu fólks sem sjaldnar er talað um.“
Þar á hann við andleg veikindi, kvíða, þunglyndi og frestun á að fólk leiti sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. „Fólk flosnar upp úr námi, mikilvæg þekking glatast á vinnustöðum og áfram mætti telja,“ segir þingmaðurinn og bætir við að fólk „hræðist ekki lengur veikindin af völdum covid, heldur sóttvarnaryfirvöld og þeirra aðgerðir.“
Þingmaðurinn segir að áhrifin á yngstu kynslóðina eigi eftir að koma í ljós. Leiðin áfram, segir Vilhjálmur, er að „treysta fólki til að taka ábyrgð á sjálfu sér“.
Í fyrramálið tekur heilbrigðisráðherra afstöðu til minnisblaðs sóttvarnarlæknis um hertar takmarkanir sem eiga að taka...
Posted by Vilhjálmur Árnason on Monday, December 20, 2021