Mikilvægt er að innviðir og regluverk hvetji til samkeppnishæfrar framleiðslu á svokölluðu rafeldsneyti, svo að tækifærin sem felast í orkuskiptum verði nýtt. Þetta skrifa Hafsteinn Helgason og Jón Heiðar Ríkharðsson, sem báðir eru verkfræðingar hjá EFLU, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Höfundarnir segja að notkun á rafeldsneyti, sem er samheiti yfir alla orkugjafa sem byggðir eru á rafgreindu vetni, muni aukast töluvert á næstu árum samhliða áformum stjórnvalda um orkuskipti.
Samkvæmt þeim hefur Evrópusambandið áætlað að notkun á rafeldsneyti innan sambandsins muni nema 80 gígavöttum árið 2030, en það jafngildir orkuframleiðslu um 110 Kárahnjúkavirkjana. Helmingurinn af þessari orku muni vera framleidd innan sambandsins, en þar er beislun vindorku í hafi lykillinn að þeirri framleiðslu.
Þurfum að flytja inn ef við framleiðum ekki
Að mati Hafsteins og Jóns Heiðars blasir það við að flytja þurfi inn erlent rafeldsneyti á næstu árum til að ná markmiðum um orkuskipti hér á landi, takist Íslendingum ekki að hefja framleiðslu á því með hagkvæmum hætti. Því telja þeir mikilvægt að undirbúa innviði og regluverk hérlendis til þess að greiða fyrir samkeppnishæfri rafeldsneytisframleiðslu innanlands.
Höfundarnir segja að hagkvæm framleiðsla á rafeldsneyti, til dæmis með beislun vindorku, geti haft jákvæð áhrif á þjóðarbúið. Auk þess gæti framleiðsla umfram eigin notkun lækkað raforkuverð hérlendis, en með samkeppnishæfu orkuverði ætti að vera hægt að flytja út hreint eldsneyti til annarra landa. Við þetta bæta þeir að framleiðslan varði einnig sjálfbærni Íslands og orku- og matvælaöryggi þjóðarinnar til frambúðar.
Vindorkan mögulegur valkostur
Hafsteinn og Jón Heiðar nefna beislun vindorkunnar sem eina mögulega leið til að auka framleiðslu á rafeldsneyti hérlendis. Samkvæmt þeim er slík framleiðsla hagkvæm, auk þess sem framkvæmdir við byggingu vindorkugarða séu að mestu leyti afturkræfar og að nýtingin fari vel með flestum landbúnaði.
Þar að auki segja höfundarnir að hægt yrði að orkuframleiðslan gæti orðið töluverð með þessum hætti, en samkvæmt þeim gæti vindorkugarður á um 105 ferkílómetra svæði framleitt um það bil helming af núverandi orkuframleiðslu landsins.