Samkeppniseftirlitið segir að Lúðvík Bergvinsson, sem skipaður var óháður kunnáttumaður til að fylgjast með sátt vegna sameiningar N1 og Festi, hafi gegnt mikilvægu hlutverki í að varpa ljósi á framkvæmd Festi á þeim skilyrðum sem félagið skuldbatt sig til að fylgja. Kjarninn greindi frá því fyrr í vikunni að kostnaður vegna starfa Lúðvíks hafi numið um 56 milljónum króna frá október 2018 og út síðasta ár. Það gera rúmlega tvær milljónir króna á mánuði að meðaltali.
Í tilkynningu sem Samkeppniseftirlitið birtir á heimasíðu sinni í dag segir að Lúðvík hafi, í samræmi við starfsskyldur sínar, gert eftirlitinu grein fyrir mögulegum brotum á sáttinni og að þau brot séu nú til rannsóknar.
Í skýrslu stjórnar Festi, sem stjórnarformaðurinn Þórður Már Jóhannesson flutti á aðalfundi félagsins fyrr í vikunni, sagði að samstarfið við Lúðvík hafi ekki gengið eins vel og Festi hefði kosið og að félaginu hafi „á tíðum þótt skorta á að leiðbeiningar kunnáttumanns væri með þeim hætti sem vænta mætti.“ Festi ætlar að óska eftir breytingum á aðkomu Lúðvíks að sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið en skipanatími hans á að óbreyttu ekki að renna út fyrr en í október 2023.
Tímafrestur liðnir
Umrædd sátt var undirrituð síðla árs 2018 og heimilaði Festi, sem rak Krónuna og fleiri matvöruverslanir, Elko og vöruhótelið Bakkann að sameinast eldneytisrisanum N1. Í sáttinni fólst meðal annars að selja átti fimm sjálfsafgreiðslustöðvar til nýrra, óháðra aðila á eldsneytismarkaði. Um var að ræða þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar undir merkjum Dælunnar við Fellsmúla og Staldrið í Reykjavík og Hæðarsmára 8 í Kópavogi, og tvær stöðvar undir merkjum N1 við Salarveg í Kópavogi og Vatnagarða í Reykjavík. Þá átti sameinað félag að selja verslun Kjarvals á Hellu.
Festi seldi bensínstöðvarnar fimm til Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs og umsvifamikils fjárfestis, og hann seldi þær síðar áfram til Skeljungs.
Þrívegis hefur verið reynt að selja verslun Kjarvals á Hellu, en án árangurs.
Af þessum sökum hafi Festi ekki staðið við þær skuldbindingar sem félagið hafði undirgengist að eigin frumkvæði og segir Samkeppniseftirlitið að tímafrestir sem Festi hafði til að selja verslun Kjarvals á Hellu séu nú liðnir.
Næsta skref sem Festi hafi skuldbundið sig til að fylgja er að stíga frá sölutilraunum á versluninni á Hellu og fallast á að óháður aðili með fullt umboð selji tilteknar eignir Festi til að tryggja það að markmið sáttarinnar nái fram. Nákvæm útfærsla á þessu úrræði er hins vegar háð trúnaði og því ekki greint frá henni í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.
Benda á að Festi stakk sjálft upp á Lúðvík
Samkeppniseftirlitið segir enn fremur að störf kunnáttumannsins Lúðvíks hafi lotið að fjölmörgum öðrum þáttum en sölu verslunar á Hellu og bendir á að hann hafi verið skipaður eftir að Eggert Þór Kristófersson, þá forstjóri N1 og nú forstjóri Festi, hafi tilnefnt Lúðvík og tvo aðra í hlutverkið.
Að undangengnu hæfismati féllst Samkeppniseftirlitið á að Lúðvík yrði falið hlutverk óháða kunnáttumannsins þar sem hinir einstaklingarnir sem Festi tilnefndi uppfylltu ekki skilyrði um óhæði gagnvart Festi og eftirlitsverkefnum sáttarinnar.
Þekkt sé í samkeppnismálum að kostnaður af störfum kunnáttumanna geti verið mismunandi, en það hefur verið gagnrýnt af stjórnendum Festi að kostnaður vegna kunnáttumanns sem skipaður var vegna samruna Haga og Olís sé einungis brot af kostnaðinum sem hlotist hefur vegna starfa Lúðvíks.
Eftirlitið segir að kostnaðurinn ráðist meðal annars af „því hvort og hvernig viðkomandi fyrirtæki fara að þeim skuldbindingum sem þau hafa lofað að hlíta. Samkeppniseftirlitið hefur gefið fyrirtækjum leiðbeiningar um kostnaðaraðhald með kunnáttumönnum eða eftirlitsnefndum sem starfa samkvæmt sáttum við fyrirtæki. Þar kemur m.a. fram að fyrirtækjum sé rétt að sýna kunnáttumönnum kostnaðaraðhald með svipuðum hætti og með annarri aðkeyptri þjónustu, án þess að sjálfstæði starfsins sé stefnt í hættu.“