Nóg svigrúm er til launahækkana í ljósi þess að hagvöxtur og framleiðniaukning er umtalsvert á Íslandi. „Topparnir í samfélaginu hafa þegar tekið til sín verulegar launahækkanir, og hækkanir bónusa og kaupréttarheimilda. Arðgreiðslur úr fyrirtækjum eru í hámarki og fjármagnstekjur hátekjufólks hafa hækkað verulega. Samhliða því hafa skattfríðindi þeirra verið aukin. Lágmark er að launafólk njóti þeirrar framleiðniaukningar sem er fyrir hendi með samsvarandi kaupmáttaraukningu. Ef ekki, þá er tekjuskiptingunni breytt í þágu hátekjuhópanna og stóreignafólks.“
Þetta segir í Kjarafréttum Eflingar sem birtar voru í morgun. Ábyrgðarmaður útgáfunnar er Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu.
Þar kemur fram að góð reynsla af Lífskjarasamningunum, þar sem ríkið kom meðal annars að með aðgerðarpakka sem það mat á um 80 milljarða króna og ráðist var í krónutöluhækkanir sem gagnast lægri launuðum umfram aðra, varði leið sem æskilegt væri að fara við núverandi aðstæður. Sérstaklega er tekið fram að umfjöllunin byggi á tilgreindum forsendum en sé ekki kröfugerð Eflingar í komandi kjarasamningum. Hún sé alfarið í höndum samninganefndar félagsins.
Flatar krónutöluhækkanir upp á tugi þúsunda
Í umfjölluninni segir að í ljósi þess að verðbólguspá Hagstofunnar fyrir árið 2022 sé 7,5 prósent þurfi almenn launahækkun að vera sú tala að viðbættum tveimur prósentustigum, eða 9,5 prósent. Með flatri krónutöluhækkun gæti það skilað hækkun upp á 52.250 krónur á mánuði. „Þetta er svipuð útfærsla og var í Lífskjarasamningnum 2019, en á hærra verðbólgustigi. Með þessari aðferð verður kaupmáttaraukning meiri í lægstu launahópum en minni í þeim efri, sem hlífir atvinnulífinu að hluta við aukningu launakostnaðar.“
Ríkið þarf að stíga fast inn í
Kjarafréttir fjalla síðan ítarlega um þann pakka sem ríkið getur lagt til svo hægt verði að liðka fyrir kjarasamningagerð, en fulltrúar atvinnulífsins og helstu ráðamenn hafa verið duglegir við að segja að það standi ekki til sem stendur. Í umfjölluninni segir meðal annars að vegna verðlagshækkana þurfi hámarksupphæð skattalækkunar til lágtekjufólks að vera um 15 þúsund krónur á mánuði en megi fjara út með hærri tekjum. Þessu mætti ná fram með lækkun lægsta álagningarþreps í tekjuskatti eða með sérstökum tekjutengdum persónuafslætti.„ Kostnað vegna þessa má fjármagna t.d. með hærra álagningarþrepi á tekjur yfir 1,5 m.kr. á mánuði og með hækkun fjármagnstekjuskatts, þannig að álagning á fjármagnstekjur verði sambærileg við álagningu á atvinnutekjur og lífeyri.“
Í umfjölluninni er auk þess lagt til að húsnæðisstuðningur úr ríkissjóði verði „verulega efldur“, meiri kraftur sé settur í uppbyggingu félagslegs húsnæðis, að húsaleigubætur verði hækkaðar og hömlur settar á hækkun leiguverðs, til dæmis með leiguþaki.
Afar brýnt að draga stórlega úr skattaundanskotum
Að mati höfunda Kjarafrétta þarf að endurhanna vaxtabótakerfið, sem hefur nánast fjarað út á síðustu árum, og að lágmarki fimmfalda það fjármagn sem fært er úr ríkissjóði til lægri tekjuhópa í formi vaxtabóta.
Lagt er til að vítahringur stýrivaxtahækkana til að takast á við verðbólgu, sem veldur því að skuldabyrðar heimila stóraukast, verði rofin, meðal annars með takmörkunum á notkun verðtryggðra lána eða með því að láta hækkanir á verði íbúðahúsnæðis koma mun hægar inn í vísitölu verðlags en nú er gert.
Þá telja höfundar að draga þurfi verulega úr skerðingum á barnabótum og hátt í tvöfalda útgjöld vegna þeirra. Þeir vilja líka að ríkið hækki frítekjumark almannatrygginga gagnvart lífeyrissjóðstekjum úr 25 þúsund krónum á mánuði í að minnsta kosti 100 þúsund krónur á mánuði. Brúttó kostnaður af því yrði um 15 milljarðar króna á ári en að frádregnum auknum skatttekjum ríkisins um tíu milljarðar króna nettó.
Að lokum segja Kjarafréttir að stjórnvöld geti slegið á verðbólguna með ýmsum öðrum leiðum, til dæmis með tímabundinni lækkun álagningar á bensín eða dísil orkugjafa eða með lækkun á virðisaukaskatti á matvæli. „Loks er afar brýnt að bæta skattheimtu og draga stórlega úr skattaundanskotum. Lausatök gagnvart skattaskilum fyrirtækja hér á landi leiða til meira taps á skatttekjum stjórnvalda en er í nær öllum öðrum vestrænum samfélögum, samkvæmt nýjum alþjóðlegum rannsóknum. Lagfæring á þessu sviði þarf að skila sér til eflingar velferðarkerfisins og annarra innviða samfélagsins.“