Gríngoðsögnin Jerry Seinfeld dró auglýsingaiðnaðinn sundur og saman í háði í síðustu viku þegar iðnaðurinn ákvað að veita honum verðlaun á CLIO verðlaunahátiðinni, sem er hluti af Auglýsingavikunni (e. Advertising Week) sem fer fram árlega í New York. Í ræðu sinni, sem vefsíða Business Insider greinir frá, segir Seinfeld meðal annars að honum finnist það góð eyðsla á krafti og orku hjá fólkinu í salnum að eyða ævi sinni í að plata saklaust fólk til að eyða stritlaunum sínum í að kaupa gagnslausa, gæðisrýra og rangt kynnta hluti eða þjónustur. „Ég elska auglýsingar vegna þess að ég elska að ljúga. Í auglýsingum er allt eins og þú óskaðir þess að það væri. Mér er alveg sama þótt það verði ekki þannig þegar ég er búinn að eignast vöruna sem verið er að auglýsa, vegna þess að á milli þess sem ég sé auglýsinguna og þar til ég eignast hlutinn, er ég hamingjusamur. Það er allt sem ég vil,“ sagði Seinfeld.
Seinfeld hlaut verðlaunin meðal annars vegna frammistöðu sinnar í auglýsingum fyrir greiðslukortafyrirtækið American Express. Fulltrúar auglýsingaiðnaðarins, sem voru andlag kaldhæðinnar gagnrýni Seinfeld í þakkarræðunni, veltust um af hlátri á meðan að hann lét dæluna ganga. Þakkaræðuna má sjá í heild sinni hér að neðan.
http://www.youtube.com/watch?v=uHWX4pG0FNY