Talið er að um 300 þúsund Danir séu haldnir því sem kallað er kaupasýki (köbemani). Nú ætla nemar og sérfræðingar við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn (CBS) að freista þess að komast að hvað veldur þessari sýki, tilgangurinn er að finna aðferðir til að lækna kaupasýkina.
Flestir hafa heyrt um eða þekkja jafnvel einhvern sem að sögn er haldinn kaupasýki. Erfitt er að skilgreina þetta fyrirbæri með nákvæmum hætti, en það lýsir sér oftast þannig að sá eða sú kaupasjúka getur varla stigið fæti inn í verslun án þess að kaupa eitthvað. Þá iðulega hluti sem viðkomandi hefur enga þörf fyrir og keypti bara án þess að hafa leitt hugann að því fyrirfram að akkúrat þennan hlut (jakka, blómavasa o.s.frv. o.s.frv.) væri þörf á að eignast.
Iðulega endar það sem keypt er með þessum hætti inni í skáp, ónotað, og endar loks í ruslinu eða í einhvers konar endurnýtingu. Þeir sem eru illa haldnir af sýkinni missa algjörlega stjórnina, eyða öllum sínum peningum í innkaupin, taka svo lán á lán ofan til að geta haldið áfram að kaupa og leggja á endanum fjárhag sinn og fjölskyldunnar í rúst. Í mörgum löndum eru stofnanir sem reyna að hjálpa fólki að takast á við kaupasýkina. Hér í Danmörku eru fleiri en ein slík, sú þekktasta er Dansk Misbrugs Behandling (DMB) sem reyndar hefur margt fleira á sinni könnu svo sem meðferð við áfengissýki og spilafíkn.
Stór hópur sem fer ört stækkandi
Í Danmörku hefur kaupasýkin verið talsvert rannsökuð. Fyrir nokkrum árum birtust í skýrslu stofnunar sem heitir Psykiatrifonden tölur um kaupasjúka Dani, shopaholics eins og þeir eru nefndir. Mörgum kom á óvart hve margir eru, samkvæmt skýrslunni haldnir kaupasýkinni, 300 þúsund manns. Þessi tala er þó ekki mjög áreiðanleg og ýmislegt bendir til að hún sé of lág. Tiltölulega fleiri konur en karlar eru haldnar sýkinni að því er fram kemur í skýrslunni.
Hvað veldur kaupasýkinni?
Á undanförnum árum hafa margir spurt þessarar spurningar en fátt verið um svör. Óánægja og lífsleiði er iðulega nefnt til skýringar, öfundsýki og samanburður við náungann (hann á fjölhraða borvél en ekki ég, Sigga í næsta húsi er barasta með nýja hanska á hverjum degi, hún er líka með nýtt borðstofusett o.s.frv.). Sérfræðingar DMB segja að þessar skýringar geti vissulega stundum átt við en flestum tilvikum sé orsakanna þó að leita annars staðar. En hvar? Það er stóra spurningin.
Rannsóknir Viðskiptaháskólans
Í fyrra gerðu sérfræðingar og nemar við Viðskiptaháskólann, CBS rannsókn sem segja má að sé undanfari þeirrar rannsóknar sem nú er að hefjast. Í þeirri rannsókn (sem 100 konur tóku þátt í) fékk hver um sig afhenta tiltekna peningaupphæð sem eyða mátti til kaupa á fatnaði, skóm eða töskum. Konunum voru jafnframt sýndar myndir af ýmsum frekar dýrum merkjavörum. Í ljós kom að af þessum hópi, sem valinn var af handahófi voru um það bil 10 prósent sem flokka mætti kaupasjúkar. Þessi 10 prósent hættu ekki að kaupa þótt peningarnir sem þær fengu úthlutað væru búnir.
Rannsóknin sem nú er að hefjast er með öðrum hætti. Hver þáttakandi fær sérstök gleraugu sem mæla augnhreyfingar og með sérstökum mælitækjum (komið fyrir á höfðinu, undir húfu) verður hægt að mæla viðbrögð heilans meðan verslunarferðin stendur yfir. Eftir á verða svo tekin viðtöl við þáttakendur. Sérfræðingarnir vonast til að komast að því hvenær þær kaupasjúku lenda út af sporinu, ef svo má segja, er það áður en þær fara inn í búðina eða þegar þær sjá hlutinn eða hlutina sem þær verða að eignast. Nokkrar verslanir í Kaupmannahöfn taka þátt í þessu verkefni, en ekki hefur verið látið uppi hvaða verslanir það eru og ekki heldur nákvæmlega hvenær rannsóknin hefst. Sérfræðingarnir hjá CBS vonast til að þessi rannsókn leiði til þess að auðveldara verði að hjálpa þeim sem glíma við kaupasýkina að sigrast á henni.
„Við gerum okkur grein fyrir því að slík lækning hentar kannski ekki þeim sem standa í verslanarekstri en hún er þeim mun gagnlegri fyrir þá sem haldnir eru sýkinni,“ sagði einn sérfræðinga Viðskiptaháskólans í blaðaviðtali fyrir nokkrum dögum.