Embætti sérstaks saksóknara mun leggja til við ríkissaksóknara að máli embættisins gegn Hannesi Smárasyni verði áfrýjað til Hæstaréttar. Þetta fékk Kjarninn staðfest hjá embættinu í morgun. Hannes var í morgun sýknaður í héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa tæpa þrjá milljarða króna af reikningi FL Group á meðan að hann var stjórnarformaður félagsins. Fénu á Hannes svo að hafa ráðstafað til Fons eignarhaldsfélags, þá í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, sem notuðu það til að borga fyrir danska lággjaldarflugfélagið Sterling á árinu 2005.
Saksóknari málsins, Finnur Þór Vilhjálmsson, fór fram á að Hannes yrði dæmdur í tveggja til þriggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt í Sterling-málinu. Verjandi Hannesar, Gísli Guðni Hall, byggði vörn hans á því að ekki hafi verið sýnt fram á að bindandi fyrirmæli hafi verið gefin um millifærsluna eða ekki. Hannes sagðist sjálfur vera saklaus af ákærunni og að ekkert benti til þess að millifærslan hefði yfir höfuð átt sér stað.
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í lok janúar síðastliðins.
Ósannað að Hannes hafi látið millifæra
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að ósannað sé að Hannes hafi látið millifæra upphæðina, en hann neitar því að hafa gert það. Í dómnum segir: "Samkvæmt því sem rakið hefur verið eru engin gögn frá W um millifærsluna á reikning Z hinn 25. apríl 2005. Vitni sem störfuðu við bankann á þeim tíma sem hér um ræðir gátu ekkert upplýst um þetta. Þá benda sum gögn frá bankanum, eins og svör bankans til endurskoðanda Y sem rakin voru að framan, til þess, að engin millifærsla til Z hafi átt sér stað og féð á bakareikningi nr. [....] hafi allan tímann verið Y aðgengilegt. Allt sætir þetta nokkurri furðu og engar fullnægjandi skýringar hafa komið fram um þetta. Ákæruvaldið verður að bera hallan vegna algjörs skorts á gögnum frá W um millifærsluna til Z auk þess sem engin vitnisburður skýrir hana eins og rakið hefur verið.
Að öllu ofanrituðu virtu og öðrum gögnum málsins er ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi látið millifæra 2.875.000.000 króna af bankareikningi Y yfir á bankareikning Z hinn 25. apríl 2005. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af fjárdrætti".