Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir nýsamþykktan fríverslunarsamning Bretlands við Ísland vera vonbrigði, þar sem ekki var sóst eftir því að bæta markaðsaðgang á unnum fiski í Bretlandi.
Í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í morgun segir Heiðrún að nýleg tíðindi um að fríverslunarsamning við Bretland hafi heilt yfir verið ánægjuleg, þar sem Bretar séu mikil vinaþjóð þar sem markaðsaðgangur fyrir vörur frá Íslandi hafi verið með ágætum. Samkvæmt Heiðrúnu hefði þó mátt ætla að þunginn í viðræðum við Breta um fríverslun væri í sjávarafurðum, þar sem 60 prósent af vöruútflutningi til Bretlands samanstendur af þeim.
Þar telur hún að aukin áhersla og metnaður Íslendinga á vinnslu sjávarafurða ætti að hafa kallað á endurskoðun á gildandi markaðsaðgangi þar. Raunin sé sú að háir tollar á einstaka sjávarafurðir, líkt og lax, karfa og ýmsa flatfiska, hamli því verulega að vinnsla þeirra sé möguleg hér á landi.
„Þessu hefði verið hægt að breyta með betri markaðsaðgangi gagnvart Bretlandi. Í þeim fríverslunarsamningi sem var undirritaður var þetta, einhverra hluta vegna, ekki sótt,“ segir Heiðrún í yfirlýsingu sinni. „Tækifærin voru ekki gripin. Að þessu leyti veldur samningurinn vonbrigðum. Verðmæti, sem hægt hefði verið að sækja með bættum tollakjörum, verða ekki til.“