Olíurisinn Shell hyggst skera niður í rekstrinum um 15 milljarða punda, jafnvirði um þrjú þúsund milljarða króna, á næstu þremur áru. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til kauphallar sem breska ríkisútvarpið vitnar til í umfjöllun sinni.
Hagnaður fyrirtækisins á síðustu þremur mánuður ársins í fyrra nam 4,2 milljörðum punda, jafnvirði tæplega 850 milljarða króna, og tvöfaldaðist milli ára. Ástæðuna fyrir hagnaðinum má meðal annars rekja til umfangsmikillar eignasölu, upp á ríflega þrjú þúsund milljarða króna.
Forstjóri Shell, Ben van Beurden, segir í viðtali við BBC að nauðsynlegt sé að stilla rekstur fyrirtækisins af miðað við ytra umhverfið, en þó megi ekki bregðast við af of mikilli ákefð vegna verðþróunar á mörkuðum undanfarna mánuði.
Frá því í júlí í fyrra hefur olíuverð lækkað mikið. En verðið á tunnunni var um 110 Bandaríkjadalir í júlí, en er nú komið niður fyrir 50 dali. Þessi verðþróun hefur komið illa við rekstur margra fyrirtækja og ríkissjóði sömuleiðis. Þannig hefur rússneska hagkerfið átt í miklum vanda undanfarna mánuði, en um 70 prósent hagkerfisins byggir á viðskiptum sem rekja má til olíu- og gasviðskipta.