Olíurisinn Royal Dutch Shell stefnir á að færa höfuðstöðvar sínar og skattalega heimilisfesti fyrirtækisins alfarið til Bretlands, en í dag er fyrirtækið með höfuðstöðvar sínar í Hollandi þrátt fyrir að félagið sjálft sé skráð í Bretlandi.
Þessar breytingar, sem tilkynntar voru í morgun, eru samkvæmt félaginu ætlaðar til einföldunar, en Shell mun einnig hætta að vera með hlutabréf félagsins í tveimur hlutabréfaflokkum. Félagið er í dag með einn hlutabréfaflokk sem kalla má hollenskan og annan sem kalla má breskan.
Shell, sem er um tuttugasta stærsta fyrirtæki heims, mun einnig breyta um nafn ef tillaga um þessar breytingar á skipulagi félagsins verður samþykkt á hluthafafundi þann 10. desember næstkomandi – og fjarlægja Royal Dutch úr nafninu.
Shell hefur verið Royal Dutch allt frá árinu 1907, en þá sameinuðust breska félagið Shell Transport and Trading Company og hollenska félagið Royal Dutch Petroleum Company.
Í tilkynningu frá Shell segir að það hafi verið fyrirtækinu mikill heiður að tengjast hollensku krúnunni í gegnum nafnið, en að fyrirtækið búist við að uppfylla ekki lengur skilyrði fyrir því eftir að höfuðstöðvarnar verða fluttar til Lundúna.
Vonbrigði í Hollandi en ánægja í Bretlandi
Þessi ákvörðun Shell er sögð hafa komið töluvert á óvart, en stjórnmálamenn í ríkjunum tveimur eru eins og e.t.v. gefur að skilja misánægðir með ákvörðun olíurisans.
Orkumálaráðherra Bretlands, Kwasi Kwarteng, fagnar tíðindinunum í yfirlýsingu á Twitter og segir hana sýna að Shell hafi ljóslega mikið traust á breska hagkerfinu, en Stef Blok, efnahags- og loftslagsmálaráðherra í hollensku stjórninni, hefur hins vegar lýst því yfir að tíðindin hafi verið óvænt og hreint ekki ánægjuleg.
Rifjað hefur verið upp í tengslum við þessar fyrirætlanir Shell að einungis um hálft ár er liðið frá því að fyrirtækið var skyldað til þess af dómstóli í Hollandi að draga út losun gróðurhúsalofttegunda um 45 prósent fyrir 2030, miðað við árið 2019.
Shell hyggst áfrýja því máli til æðri dómstiga í Hollandi, en niðurstaða dómstólsins tók einungis til starfsemi fyrirtækisins í Hollandi.