Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar fjallaði um eftirlitsmál undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær. Hann hóf mál sitt á að segja að ekki hefði verið fallegt að sjá myndefni á dögunum þar sem níðst var á hryssum þegar tekið var blóð úr þeim.
„Þetta var ekkert annað en óhugnanlegt dýraníð. Enn og aftur vakna upp spurningar á Íslandi um slælegt eftirlit. Matvælastofnun hefur sjálf í umsögn til þingsins vottað eigið eftirlit með þessum iðnaði og sagt að þar stangist ekkert á við lög. Myndbandið segir okkur aðra sögu,“ benti hann á.
Beindi Sigmar sjónum sínum að brottkasti en Kjarninn greindi frá því byrjun vikunnar að í upphafi þessa árs hefði verið byrjað að notast við dróna í eftirliti og vonaðist Fiskistofa eftir því að sjá úr lofti góða umgengni við sjávarauðlindina. Þann 25. nóvember voru málin, þar sem ætlað var að afla bæði stórra og smárra skipa hefði verið kastað í sjóinn, aftur á móti orðin að minnsta kosti 120 talsins. Alls fjögur mál varða brottkast af skipum af stærstu gerð, sem veiða með botnvörpu.
„Með því að nýta dróna hefur Fiskistofa fjölgað brottkastsmálum úr um það bil tíu á ári að jafnaði í 120 það sem af er ári. Fiskistofa, sem oft hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir slælegt eftirlit, hefur með breyttum vinnubrögðum fært okkur aðra sýn á umgengni við sjávarauðlindina,“ sagði Sigmar.
Hann benti enn fremur á að stundum stæðu eftirlitsstofnanir „í lappirnar“, til að mynda þegar Persónuvernd hefði slegið á fingur fyrrverandi sjávarútvegsráðherra „sem reyndi að fela sig á bak við persónuverndarlög þegar upplýsa átti þingið um mikilvægt mál. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur vakið máls á því að hann telji að stjórnvöld standi ekki með eftirlitsstofnunum. Þau orð voru nánast eins og fyrri partur í vel ortri vísu sem seðlabankastjóri botnaði stuttu síðar með þeim fleygu orðum að Íslandi væri að miklu leyti stýrt af sérhagsmunahópum.“
Sagðist Sigmar hafa nefnt þetta á þingi vegna þess að ráðherrar í ríkisstjórninni hefðu á stjórnmálaferli sínum talað gegn virku eftirliti og meðal annars sagt galið að forgangsraða í þágu eftirlitsiðnaðarins eins og það var kallað.
„Það er mikið talað um að efla eftirlit í stjórnarsáttmálanum en það væri oflof og jafnvel háð að segja að það endurspeglaðist í fjárlagafrumvarpinu. Blóðmerar og brottkast færa okkur heim sanninn um að bit- og tannlausar eftirlitsstofnanir eru lítils virði. Ábyrgðin liggur hins vegar hjá þeim sem stjórna landinu,“ sagði hann að lokum.