Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er eini forsætisráðherra Norðurlandanna sem ekki er í París til að taka þátt í minningarathöfn um fórnarlömb hryðjuverkanna þar fyrr í vikunni.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, segir í svari við fyrirspurn mbl.is að forsætisráðuneytinu hafi borist boð frá frönskum yfirvöldum um þátttöku í samstöðugöngunni síðla föstudags, en að Sigmundi Davíð hafi ekki verið unnt að þekkjast boðið. Jóhannes sagðist ekki geta gefið nánari skýringu á því hvers vegna hann sá sér ekki fært að mæta.
Nína Björk Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi, var opinber fulltrúi Íslands við athöfnina.
Tvær milljónir og 40 þjóðarleiðtogar
Francois Hollande Frakklandsforseti ásamt ýmsum þjóðarleiðtogum í göngunni í dag.
Leiðtogar yfir 40 ríkja eru staddir í París þar sem nú fer fram samstöðuganga. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og Angela Merkel Þýskalandskanslari eru á meðal þjóðarleiðtoga sem taka þátt, auk forsætisráðherra Tyrklands og Ísraels og forseta Palestínu.
Incroyable photo de #Hollande et #Merkel @LePoint #jessuischarlie #MarcheRepublicaine pic.twitter.com/DuOPUl7cql
— Nicolas Guégan (@NGuegan) January 11, 2015
Talið er að tæplega tvær milljónir manna séu í göngunni, og því er hún stærsti viðburður af þessu tagi í sögu Frakklands. Göngur voru einnig haldnar í fleiri borgum Frakklands í dag, sem og í London, Madríd, Kaíró, Sydney og Tókýó.