„Nú má öllum vera ljóst að grípa þarf til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir að borgaryfirvöld grafi stöðugt undan flugvellinum og beiti brögðum til að losna við hann.“ Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarmanna sem nú stendur yfir.
Hjartað í Vatnsmýrinni, sem eru grasrótarsamtök sem berjast gegn því að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur, sendu á dögunum bréf á Alþingismenn og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra, þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir Valsmanna við norðurenda NA/SV brautar flugvallarins, svokallaðrar neyðarbrautar, eru harðlega gagnrýndar.
Biðlað til Alþingismanna
Í bréfinu segir: „Sú framkvæmd, sem er dyggilega studd af meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur er fyrsta skrefið að lokun Reykjavíkurflugvallar. Allt tal um að þetta sé einungis framkvæmdavegur og þess háttar er einungis til að reyna að slá ryki í augu fólks. Reykjavíkurborg er fullkunnugt um, að lokun þessarar brautar er reiðarslag fyrir flugöryggi Reykjavíkurflugvallar, en meirihlutinn lætur það sig engu varða, þar sem byggingarhagsmunir Valsmanna virðast skipta þá meira máli.“
Þá hvetja samtökin til þess að skipulagsvaldið verði tekið af borgaryfirvöldum, sem fari gegn vilja meirihluta þjóðarinnar sem vilji hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, og komið verði í veg fyrir óafturkræfar framkvæmdir Valsmanna.
„Það er vitanlega verkefni Alþingis og ríkisstjórnar að finna leið út úr þessum vanda sem virðist stafa af því að sveitarfélag telur sig geta boðið almannahagsmunum birginn í krafti skipulagsheimildar þess. Samt er það ríkisvaldið sem fer með endanlegt skipulagsvald. Dæmi eru um það erlendis, að skipulag tiltekinna svæða eða mannvirkja sé fært beint undir skipulagsvald ríkisins vegna öryggishagsmuna. Sama á jafnframt við hér á landi um Keflavíkurflugvöll. Með vísan til þeirrar óheillaþróunar sem átt hefur sér stað varðandi skipulag Reykjavíkurflugvallar hlýtur að vera athugandi að færa skipulag Reykjavíkurflugvallar og eftir atvikum annarra mannvirkja og/eða svæða beint undir skipulagsvald ríkisins.“
Ekki er annað að heyra en að forsætisráðherra taki í sama streng og samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni með ummælum sínum í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarmanna í dag. Þá hyggst Þórhallur Höskuldsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mæla fyrir frumvarpi þar sem kveðið er á um að ríkið fari með skipulagsvald á alþjóðaflugvöllum landsins.