Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, átti í dag símafund með Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. Ráðherrarnir ræddu þá alvarlegu stöðu sem upp er komin í samskiptum ríkjanna, að því er segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Eins og kunnugt er útvíkkuðu Rússar innflutningsbann sitt og nær það nú til Íslands. Þetta bitnar á viðskiptum landanna en Rússlandsmarkaður er einn helsti markaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja þegar kemur að uppsjávartegundum, þar á meðal makríl.
„Forsætisráðherra Íslands gerði forsætisráðherra Rússlands grein fyrir því að áhrif viðskiptaþvingana hér á landi væru hlutfallslega meiri en hjá flestum öðrum ríkjum sem undir þær falla og virðast bitna mest á útflutningi á sjávarafurðum,“ segir í tilkynningunni.
,,Við áttum gott samtal þar sem við ræddum aðdraganda þeirrar stöðu sem komin er upp og urðum sammála um að æskilegt væri að embættismenn landanna héldu áfram samskiptum. Það eru gríðarlegir hagsmunir undir og ríkisstjórnin setur þetta mál í algeran forgang“, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, að afloknum fundinum.
Samtalið við forsætisráðherra Rússlands átti sér stað í kjölfar þess að ríkisstjórnin fór yfir möguleg áhrif viðskiptaþvingana á fundi sínum fyrr í dag. „Ísland og Rússland eiga langa og jákvæða viðskiptasögu að baki og það hefur verið vilji hér á landi til að byggja áfram á því sterka viðskiptasambandi. Íslensk stjórnvöld hafa undanfarnar vikur átt mikil samskipti við rússnesk stjórnvöld eftir ýmsum leiðum til að reyna að koma í veg fyrir að mótaðgerðir Rússa bitnuðu óeðlilega mikið á Íslandi. Stjórnvöld munu halda þeim samskiptum áfram með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum á mikilvæg störf í sjávarútvegi og greinina í heild,“ segir í tilkynningunni.