„Óska landsmönnum til hamingju með fullnaðarsigur í Icesave málinu. Hollendingar og Bretar hafa fallið frá öllum kröfum vegna Icesave-málsins og taka því sem þeim hefur staðið til boða frá upphafi.
Málinu endanlega lokið.“ Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Facebook síðu sinn í dag en eins og fram kom í dag þá hefur Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta náð samkomulagi við hollenska seðlabankann (DNB) og breska innstæðutryggingasjóðinn (FSCS) um lokauppgjör krafna vegna Icesave. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta greiðir Hollendingum og Bretum samtals 20 milljarða íslenskra króna úr B deild sjóðsins, en í þeirri deild eru fjármunir sem að mestu leyti var safnað fyrir bankahrunið, að því er fram kemur í tilkynningunni.
DNB og FSCS hafa eins og aðrir forgangskröfuhafar hjá þrotabúi gamla Landsbankans fengið greiðslur frá gamla Landsbankanum sem nema um 85 prósentum af höfuðstól krafnanna.
Guðrún Þorleifsdóttir, formaður stjórnar tryggingarsjóðsins, og sagðist vera ánægð með að búið væri að ná samningum um lokafrágang Icesave skuldbindinganna með greiðslu sem sé „vel viðráðanleg fyrir TIF og sanngjörn gagnvart öllum aðilum ágreiningsins.“
Óska landsmönnum til hamingju með fullnaðarsigur í Icesave málinu. Hollendingar og Bretar hafa fallið frá öllum kröfum...Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Friday, September 18, 2015