Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist aldrei hafa fullyrt að lög hafi verið brotin í samhengi við endurreisn bankakerfisins, heldur hafi hann fullyrt að menn hafi „tekið rangar og skaðlegar pólitískar ákvarðanir“ og kastað miklum verðmætum á glæ þegar bankarnir voru endurreistir. Hann sagði pólitíska andstæðinga hafa reynt að leiða umræðuna að meintum lögbrotum vegna þess að þeir treystu sér ekki í umræðu um það sem málið snérist um, þessar röngu pólítísku ákvarðanir.
Þetta sagði Sigmundur Davíð í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og Róbert Marshall, formaður Bjartar framtíðar, spurðu hann báðir um skýrslu Brynjars Níelssonar á þinginu í dag. Skýrslan fjallar um ásakanir Víglundar Þorsteinssonar um að ráðherrar, embættismenn og bankamenn hafi gerst sekir um stórfelld og margvísleg lögbrot þegar lán einstaklinga og fyrirtækja voru flutt úr gömlu bönkunum í þá nýju. Hann talaði um svik og blekkingar í þessu sambandi.
Brynjar Níelsson skilaði skýrslu sinni vegna málsins til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær. Hann segir útilokað að taka undir ásakanir Víglundar um svik og blekkingar, og að hann finni engin merki um lögbrot. Eðlilegt sé þó að lagaumgjörðin á Íslandi verði skoðuð sem og ferlið við endurreisn bankanna.
Þegar ásakanirnar komu fram síðast í janúar sagði Sigmundur Davíð að ásakanir Víglundar væru „við fyrstu sýn býsna sláandi.“ Jafnframt sagði hann að „þessi gögn virðast staðfesta það sem okkur grunaði áður og varð að mjög heitu pólitísku máli á sínum tíma.“
Hann sagði augljóst að gögn Víglundar kallaði á frekari athugun og að þau gefi það sterklega til kynna að menn hafi gengið mjög langt í að snúa við niðurstöðu sem komin var, sem hefði verið miklu hagstæðari almenningi, í þeim eina tilgangi að þóknast kröfuhöfum bankanna. Sigmundur sagði einnig að menn hafi fundið leiðir til þess að fara framhjá neyðarlögunum, og boðaði rannsókn á málinu.