„Að mínu mati er ekki hægt að gera þá kröfu til stjórnenda undirstofnunar ráðuneytis að þeir gangi úr skugga um það hverju sinni sem ráðuneyti kallar eftir upplýsingum eða gögnum að viðkomandi hafi heimild eða umboð til að óska eftir gögnunum.“
Þetta má lesa í bréfi Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðsins, sem hún sendi Persónuvernd þann 3. desember síðastliðinn. Bréfið var sent í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á samskiptum Sigríðar Bjarkar, þegar hún var lögreglustjóri á Suðurnesjum, og Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðuneytisins, við upphaf Lekamálsins svokallaða. Kjarninn hefur umrætt bréf undir höndum, en það er hægt að nálgast hér.
Í bréfinu kemur fram afstaða Sigríðar Bjarkar, um að hún hafi sent Gísla Frey greinargerð um hælisleitandann Tony Omos í góðri trú og ráðuneytið hafi átt rétt á að óska eftir gögnunum frá undirstofnun meðal annars með vísan til laga um Stjórnarráðið.
Mikilvægt að hægt sé að bregðast skjótt við
„Þá er rétt að árétta að enda þótt gagnaöflun af hálfu innanríkisráðuneytisins sé að jafnaði með formlegum hætti, þá gerist það alloft að upplýsinga sé beiðst í gegnum síma, eða með tölvubréfi, krefjist mál skjótrar úrlausnar, eins og hér var um að ræða. Krafa um skilvirka stjórnsýslu útheimtir að brugðist sé við slíku svo fljótt sem unnt er - vissulega er rétt að gæta að eðlilegum formsatriðum í slíkum tilvikum, en einhvers staðar liggja þó takmörk í þeim efnum eins og öðrum,“ skrifar Sigríður Björk í áðurnefndu bréfi til Persónuverndar frá 3. desember síðastliðnum.
Lögreglustjórinn sendi Persónuvernd annað bréf 30. janúar síðastliðinn vegna rannsóknar stofnunarinnar á Lekamálinu. Kjarninn birti sömuleiðis það bréf þann 18. mars.
Eins og Kjarninn greindi fyrstur frá komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu í byrjun mars að Sigríður Björk hafi brotið gegn lögum um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga með því að skrá ekki miðlun upplýsinganna í málaskrá lögreglunnar, að miðlun þeirra hafi ekki stuðst við viðhlítandi heimild og að ekki hafi verið gætt viðunandi öryggis við miðlun upplýsinganna.