Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vísar á bug gagnrýni á rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á LÖKE-málinu svokallaða. Sigríður Björk var yfir lögreglunni á Suðurnesjum þegar málið var rannsakað þar. Hún var spurð um þetta í viðtali við Björn Inga Hrafnsson í Eyjunni á Stöð 2 nú í kvöld.
Lögreglumaður var sakaður um hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í málaskrá lögreglunnar, LÖKE, án þess að uppflettingar tengdust starfi hans sem lögreglumanns. Hann var ákærður fyrir þetta og fyrir að hafa miðlað persónuupplýsingum sem leynt áttu að fara til þriðja aðila í gegnum Facebook. Seinni ákæruliðurinn stendur eftir, en ríkissaksóknari féll frá hinum fyrri.
Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður mannsins, hefur sakað lögregluna á Suðurnesjum um að hafa vanrækt að rannsaka málið til hlítar. Hann hefur sagt að aldrei hafi farið fram rannsókn heldur hafi hann verið borinn sökum af aðstoðarlögreglustjóranum á Suðurnesjum á þeim tíma, Öldu Hrönn Jóhannsdóttur. „Við höfum ítrekað krafist þess að framkvæmd yrði rannsókn á fjarstæðukenndum samsæriskenningum aðstoðarlögreglustjóra. Alltaf var viðkvæðið að það hafi verið gert. Svo þegar saksóknari settist niður til að undirbúa aðalmeðferð í málinu hefur hún lesið gögn málsins í fyrsta skipti. Þá hefur hún uppgötvað að ákæra hafi verið gefin út á fölskum forsendum,“ sagði Garðar Steinn í viðtali við Kjarnann í vikunni.
Sigríður Björk vísaði þessu öllu á bug í Eyjunni og sagði gagnrýnina ómálefnalega, vegna þess að það hafi verið ríkissaksóknari sem hafi tekið allar ákvarðanir í málinu.