Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi dómsmálaráðherra, mun ekki gera kröfu um að vera á lista flokksins í Reykjavík í komandi þingkosningum. Frá þessu greinir hún í stöðuuppfærslu á Facebook.
Á sama vettvangi greinir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, frá því að hann kveðji stjórnmálin sáttur.
Sigríður sóttist eftir öðru sætinu í prófkjöri flokksins í Reykjavík sem lauk í gær. Þegar talningu atkvæða var lauk lá hins vegar fyrir að hún varð ekki á meðal átta efstu. Í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur sem stendur fimm þingmenn i Reykjavík og er að mælast með fjóra til fimm í könnunum þá liggur fyrir að Sigríður átti nær enga möguleika að halda sér á þingi miðað við niðurstöðu prófkjörsins.
Brynjar sóttist líka eftir öðru sætinu en endaði í fimmta. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir hann að úrslitin séu „talsverð vonbrigði fyrir mig en skilaboðin eru skýr. Ég trúi því að Sjálftæðisflokknum muni vegna vel í komandi kosningum. Ég kveð því stjórnmálin sáttur.”