Breiðbands internet hefur nú verið skilgreint sem almannaþjónusta (public utility) eftir að nefnd bandaríska ríkisins, sem úrskurðar um álitamál sem snúa meðal annars að samskiptum (FCC), komst að þeirri niðurstöðu í dag með úrskurði. Samkvæmt fréttum New York Times þykir þetta mikill sigur fyrir þá sem hafa barist fyrir jöfnum rétti almennings á internetinu, og því að fjarskiptafyrirtæki komist ekki í þá stöðu að stýra internetinu með einokun, en það er fyrir löngu orðið mikilvægur og sjálfsagður hluti af daglegu lífi fólks.
Kjarninn fjallaði ítarlega um þessi álitamál í fréttaskýringu 6. september í fyrra, en miklir hagsmunir voru undir í þessu máli, ekki síst fyrir bandaríska fjarskiptafyrirtæki.
Hraðbrautir?
Baráttan um internetið snýst um vilja stærstu fjarskiptafyrirtækja Bandaríkjanna: Comcast, Verizon, Time Warner Cable og At&t, til að hagnast á nýjan hátt á internetinu. Úrskurðurinn í dag kemur í veg fyrir að fyrirtækin geti náð vilja sínum fram, í það minnsta í þetta skiptið.
Hugmyndir fyrirtækjanna ganga út á að láta vefsíður greiða sérstök gjöld til sín til að fá aðgang að svokölluðum „hraðbrautum“, sem tryggja hraða upphleðslu á síðunum og betri streymi á efni þeirra. Þær vefsíður sem annað hvort vilja ekki eða geta ekki greitt fjarskiptarisunum yrði refsað með því að hægja á upphleðslu og streymi á síðunum, jafnvel svo mikið að þær muni hreinlega ekki virka.
Barist fyrir net-hlutleysi
Áformin hafa vakið athygli og reiði í Bandaríkjunum og hafa fyrirtæki og einnig grasrótarhópar reynt að afla hugmyndinni um internetið sem almannaþjónustu fylgis. Hugmyndir fjarskiptafyrirtækjanna hafa verið sagðar grímulausar árásir á helstu grunnstoðina fyrir því að internetið virkar svona vel, þar ríkir fullkomið jafnræði. Hagsmunasamtök sem mynduð voru gegn áformum fjarskiptafyrirtækjanna segja að net-hlutleysi (e. net-neutrality) hverfi ef þau fái að verða að veruleika og internetið, eins og við þekkjum það í dag, muni í reynd deyja í kjölfarið. Vefsíður í eigu þeirra fyrirtækja sem muni borga hátt verð fyrir aukinn hraða muni einoka internetið, og skerða möguleika almennings til þess að nýta sér það.
Úrskurðurinn í dag vinnur hins vegar gegn þessum áformum fjarskiptafyrirtækjanna, og skilgreinir aðgengi að interneti sem almannaþjónustu, en samkvæmt New York Times er þessi niðurstaða líkleg til þess að hraða því að breiðbandsinternettengingar verði tengdar við bandarísk heimili, sem hluti af grunnþjónustu, á næstu misserum.