Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur formlega óskað eftir því við fangelsismálayfirvöld að hefja afplánun á fjögurra ára fangelsisdómi sem hann hlaut nýverið í Hæstarétti Íslands fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða. Þetta herma heimildir Kjarnans.
Vísir greindi frá því í dag að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, sé kominn í afplánun á fimm og hálfs árs fangelsisdómi sem hann hlaut fyrir Al-Thani fléttuna, og sé nú vistaður í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Samkvæmt heimildum Kjarnans bað hann um að komast í afplánun áður en hann var boðaður til afplánunar.
Þá greindi DV frá því 25. febrúar síðastliðinn að Ólafur Ólafsson hafi hafið aplánun á Kvíabryggju, en hann hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Hæstarétti vegna Al-Thani málsins. En Ólafur óskaði sömuleiðis sjálfur eftir að komast í afplánun.
Þá hlaut Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm fyrir aðild sína að málinu, en Kjarnanum er ekki kunnugt um hvort hann hafi sömuleiðis óskað eftir að hefja aplánun.
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, sagði af því tilefni í samtali við Kjarnann að mjög sjaldgæft sé að einstaklingar leiti eftir því að hefja afplánun fangelsisdóma áður en þeir eru boðaðir til afplánunar. Þegar slíkar óskir berist sé allt reynt til að koma til móts við þær.