Síldarvinnslan hagnaðist um 11,1 milljarða króna á síðasta ári, ef miðað er við meðalgengi Bandaríkjadals en félagið gerir upp í þeirri mynt. Af þeirri upphæð féllu um þrír milljarðar króna til vegna söluhagnaðar sem myndaðist þegar SVN eignafélag, stærsti eigandi tryggingafélagsins Sjóvár, var afhentur fyrri hluthöfum Síldarvinnslunnar áður en félagið var skráð á markað í maí í fyrra.
Þetta kemur fram í ársreikningi Síldarvinnslunnar, sem birtur var í dag.
Stjórn Síldarvinnslunnar leggur til við aðalfund að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2021 upp á 3,4 milljarða króna.
Félagið greiddi 531 milljónir króna í veiðigjöld í fyrra og tæplega 2,1 milljarð króna í tekjuskatt. Því námu samanlagðar greiðslur vegna veiðigjalds og tekjuskatts í ríkissjóð um 2,6 milljörðum króna, eða 76 prósent af þeirri upphæð sem til stendur að greiða hluthöfum í arð og 23 prósent af hagnaði Síldarvinnslunnar vegna síðasta árs.
Eigið fé 55 milljarðar króna
Rekstrartekjur útgerðarrisans voru 30,1 milljarður króna og EBITDA-hagnaður, hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta, var 10,7 milljarðar króna.
Í ársreikningnum segir enn fremur að eigið fé félagsins hafi verið um 55,1 milljarðar króna í lok árs í fyrra miðað við gengi krónu gagnvart Bandaríkjadali í lok árs og eiginfjárhlutfallið 67 prósent. Vert er að taka fram að aflaheimildir sem félagið hefur til umráða eru færðar á nafnvirði í efnahagsreikningi. Upplausnarvirði þeirra getur verið mun hærra.
Risavaxin blokk í sjávarútvegi
Miðað við nýjasta birta lista Fiskistofu um þær aflaheimildir sem hvert fyrirtæki heldur á þá er Síldarvinnslan, ásamt dótturfélögum, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 9,41 prósent hans. Þá keypti Síldarvinnslan útgerðarfyrirtækið Berg Huginn á árinu 2020 en það heldur á 1,03 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar, sem var skráð á hlutabréfamarkað í fyrra, eru Samherji hf. (32,64 prósent) og Kjálkanes ehf. (17,44 prósent), félags í eigu Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum. Auk þess á Eignarhaldsfélagið Snæfugl, sem er meðal annars í eigu Samherja og Björgólfs, fjögur prósent hlut. Samanlagt halda því þessir þrír aðilar á um 54,1 prósent hlut í Síldarvinnslunni og skipa þrjá af fimm stjórnarmönnum þess. Þeir fá rúmlega 1,8 milljarða króna í arð verði tillaga stjórnar Síldarvinnslunnar um arðgreiðslu samþykkt.
Útgerðarfyrirtækið Gjögur er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes. Samkeppniseftirlitið birti þá niðurstöðu frummats síns í febrúar 2021 að til staðar væru vísbendingar um um yfirráð Samherja eða sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni. Síðan að sú niðurstaða var birt hefur, samkvæmt heimildum Kjarnans, verið kallað eftir gögnum frá stjórnvöldum, Samherja, Síldarvinnslunni og öðrum tengdum aðilum vegna málsins. Sú gagnaöflun hafi gengið vel en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort ráðist verði í formlega rannsókn á málinu.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, halda samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.