Síldarvinnslan fékk tæplega 19,1 milljón króna styrk úr Matvælasjóði vegna verkefnisins Rauða Gullið en úthlutað var úr sjóðnum fyrr í þessum mánuði. Styrkur Síldarvinnslunnar kemur úr þeirri deild Matvælasjóðs sem nefnist Afurð og er hlutverk Afurðar að styrkja verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki enni tilbúin til markaðssetningar. „Styrkveitingar miða að því að gefa styrkþegum tækifæri til að móta og þróa afurðir úr hráefnum sem falla til við matvælaframleiðslu og stuðla þar með að verðmætasköpun,“ segir um Afurð á vef Stjórnarráðsins.
Alls hlutu sjö verkefni styrk úr Afurð og námu styrkveitingarnar alls tæpum 110 milljónum króna. Hámarksstyrkur í þessum flokki Matvælasjóðs nemur 30 milljónum króna og getur lengd verkefna að hámarki orðið 12 mánuðir. Hæsta styrkinn úr afurð hlaut Royal Iceland hf., 25,5 milljónir króna, fyrir verkefni sem snýr að fullvinnslu grjótkrabba.
15 milljóna styrkur til Útgerðarfélags Reykjavíkur
Annað félag sem hlaut styrk úr Afurð er Slippurinn Akureyri sem fékk rúmlega 10 milljón króna styrk vegna verkefnis sem ber heitið Sjávarlón. Slippurinn er að meirihluta í eigu Samherja í gegnum félagið Ice Tech ehf, sem á rúmlega 71 prósenta hlut í Slippnum.
Samherji er auk þess stærsti einstaki eigandi Síldarvinnslunnar, með um 32,6 prósenta beinan eignarhlut, en Síldarvinnslan var skráð á markað fyrr á þessu ári. Þar að auki á Samherji 15 prósenta eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Snæfugli sem á 4,29 prósent af hlutafé Síldarvinnslunnar.
Meðal annarra styrkþega í úthlutun Matvælasjóðs var Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) sem fékk rétt tæplega 15 milljón króna styrk úr flokknum Keldu vegna verkefnisins CRISP-FISH. Alls var rúmlega 261 milljón króna úthlutað úr Keldu til 20 verkefna.
Tæplega 570 milljónir til 64 verkefna
Matvælasjóður skiptist í fjórar deildir en auk Keldu og Afurðar eru flokkarnir Bára og Fjársjóður. Í flokknum Báru eru verkefni á hugmyndastigi styrkt og geta fyrirtæki sem stofnuð voru á síðustu fimm árum sótt um styrk, „sem og frumkvöðlar sem vilja þróa hugmynd, hráefni eða aðferðir sem tengjast íslenskri matvælaframleiðslu.“ Úr Báru var um 81 milljón króna úthlutað til 29 verkefna.
Styrkir úr Fjársjóði eru ætlaðir verkefnum sem hafa það að markmiði að styrkja markaðsinnviði og stuðla að markaðssókn afurða tengdum íslenskri matvælaframleiðslu. Tæpum 115 milljónum króna var úthlutað til 8 verkefna úr Fjársjóði.
Alls námu úthlutanir úr Matvælasjóði 566,6 milljónum og runnu þær til 64 verkefna. 273 umsóknir um styrki bárust sjóðnum í ár. „Fjögur fagráð voru stjórn sjóðsins til ráðgjafar, eitt í hverjum styrkjaflokki, og skiluðu þau til stjórnar forgangsröðun verkefna eftir einkunnum ásamt umsögnum um hvert verkefni fyrir sig. Stjórn Matvælasjóðs skilaði tillögum til ráðherra hinn 3. september sl. og hefur ráðherra fallist á þær,“ segir á vef Stjórnarráðsins. Í stjórn Matvælasjóðs eru Margrét Hólm Valsdóttir, formaður, Karl Frímannsson, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, samkvæmt tilnefningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og Gunnar Þorgeirsson, samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands.