„Enski boltinn er í útboði nú í nóvember með réttinn til þriggja ára frá og með haustinu 2016. Síminn fylgist spenntur með öllum spennandi útsendingarréttum,“ segir í formlegu svari Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans, við fyrirspurn Kjarnans um það, hvort Síminn eða SkjárEinn ætli sér að bjóða í réttinn til útsendinga á ensku úrvalsdeildinni.
365 miðlar eru með útsendingaréttinn á ensku úrvalsdeildinni fram til hausts 2016. Líklegt er að nokkuð hörð samkeppni verði um réttinn að þessu sinni, samkvæmt heimildum Kjarnans, og þá á milli 365 og Símans.
365 hefur haft réttinn til útsendinga á ensku úrvalsdeildinni hér á landi um árabil, og hefur hug á því að endurnýja hann. Búast við nokkurri samkeppni um réttinn að þessu sinni.
Á Norðurlöndunum er hart barist um réttinn og er búist við því að metupphæðir verði greiddar fyrir rétt til útsendinga til þriggja ára frá hausti 2016. Samkvæmt skrifum VG í Noregi, er reiknað með því að greiða þurfi yfir milljarð norskra króna, eða um fimmtán milljarða króna á núverandi gengi, fyrir rétt til útsendingar þar í landi en mikill áhugi er á enska boltanum í Noregi, eins og hér á landi. Sé mið tekið af þeirri upphæð sem nefnd er í umfjöllun VG, og hún sett hlutfallslega niður á íslenskan markað miðað við mun á íbúafjölda, þá gæti rétturinn á útsendingum enska boltans hér á landi til þriggja ára farið á tæpan milljarð króna.
Síminn hefur opnað SkjaEinn á nýjan leik, en selur áskrifendum aðgang að efnisveitu.
Síminn er sem kunnugt er á leið á markað, en fjárhagsstaða félagsins, eftir endurskipulagningu, er sterk. Eigið fé félagsins er tæplega 30 milljarðar króna. Almennt útboð á bréfum Símans til fjárfesta fer fram 5. til 7. október, en það er Arion banki sem er að selja á bilinu 18 til 21 prósent í félaginu. Búist er við því að viðskipti með bréf félagsins í kauphöll geti hafist 15. október.
Fjárhagur 365 er einnig sterkur, sé horft til ársreiknings félagsins fyrir árið 2013, en þá nam eigið fé félagsins 3,3 milljörðum króna.