Hluthafar Símans munu taka afstöðu til þess undir lok októbermánaðar hvort lækka skuli hlutafé félagsins um 31,5 milljarða króna og greiða þá upphæð út til hluthafa, í kjölfar þess að fyrirtækið fékk greiðslu frá franska fyrirtækinu Ardian fyrir Mílu.
Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu frá Símanum í dag, en þar segir að Síminn hafi fengið greitt að fullu fyrir Mílu. Ardian greiddi annars vegar 32,7 milljarða króna í reiðufé og svo 17,5 milljarða króna í formi framseljanlegs skuldabréfs til þriggja ára.
Stefnt er að því að halda hluthafafund þar sem afstaða verður tekin til þessarar 31,5 milljarða greiðslu til hluthafa þann 26. október.
Einnig segir Síminn frá því að til skoðunar sé að selja skuldabréfið eða eftir atvikum greiða andvirði þess út til hluthafa, en að gera megi ráð fyrir að tillaga þess efnis verði tekin fyrir á öðrum hluthafafundi.
Ætlaður söluhagnaður Símans af viðskiptunum með Mílu er nú sagður 37,8 milljarðar króna að teknu tilliti til alls kostnaðar vegna viðskiptanna og uppfærðrar áætlunar um veltufjármuni og skuldir Mílu.
Stoðir og lífeyrissjóðir stærstu hluthafar
Fjárfestingafélagið Stoðir var stærsti einstaki hluthafi Símans í lok ágúst, með 15,92 prósenta hlut. Félagið má því vænta þess að fá rúma 5 milljarða greidda út ef hluthafar Símans samþykkja að lækka hlutafé félagsins með þeim hætti sem lagt er til.
Nær allir aðrir stærstu hluthafar Símans eru lífeyrissjóðir, en Lífeyrissjóður Verzlunarmanna fer með 11,89 prósenta hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 10,91 prósent og Gildi Lífeyrissjóður á 7,78 prósent í fyrirtækinu.