Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, var ekki á meðal sex efstu í prófkjöri flokksins í Rangárþingi ytra sem fram fór í gær. Hann hafði sóst eftir því að leiða listann og vildi verða næsti sveitarstjóri í sveitarfélaginu.
Ingvar Pétur Guðbjörnsson sigraði í prófkjörinu og fékk 219 af 400 gildum atkvæðum. Aðrir sem röðuðu sér í efstu fjögur sætin fengu auk þess 94 atkvæði í fyrsta sætið sem þýðir að í mesta lagi rúmur fimmtungur kaus Ásmund í oddvitasætið.
Kjarninn greindi frá mögulegu framboði hans 26. janúar síðastliðinn, nokkrum dögum áður en hann tilkynnti það formlega. Þá hafði Ásmundur flutt lögheimili sitt til Hellu, en hann var áður skráður til heimilis í Reykjanesbæ. Ásmundur sagði að hann hefði fengið hvatningu um að bjóða sig fram í Rangárþingi ytra, sem er sterkt vígi Sjálfstæðisflokksins. Hann er með hreinan meirihluta í Rangárþingi ytra í dag eftir að hafa fengið yfir 62 prósent atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018.
Hann sagði enn fremur að ef hann yrði sveitarstjóri í Rangárþingi ytra í kjölfar kosninga myndi það þýða að hann myndi víkja af Alþingi.
Ásmundur var kjörinn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í fyrrahaust í þriðja skipti frá því hann náði fyrst kjöri árið 2013 og er sjötti þingmaður Suðurkjördæmis.
Fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er Björgvin Jóhannesson.
Röð sex efstu sæta eftir lokaniðurstöður prófkjörsins er eftirfarandi:
- sæti: Ingvar Pétur Guðbjörnsson með 219 atkvæði.
- sæti: Eydís Þorbjörg Indriðadóttir með 184 atkvæði í 1.-2. sæti.
- sæti: Björk Grétarsdóttir með 194 atkvæði í 1.-3. sæti.
- sæti: Þröstur Sigurðsson með 213 atkvæði í 1.-4. sæti.
- sæti: Svavar Leópold Torfason með 235 atkvæði í 1.-5. sæti.
- sæti: Sóley Margeirsdóttir með 254 atkvæði í 1.-6. sæti.