Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að, ásamt klofningi, sé meginvandi flokksins í dag víðtækur trúverðugleikabrestur. „Og vandinn er djúpstæðari en svo að það verði tekist á við hann með því að yppta öxlum, tala um breytta tíma og búa til nokkur 30 sekúndna myndbönd fyrir kosningar.“
Þetta kemur fram í grein sem Páll, sem er sitjandi oddviti Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi en verður ekki í framboði í haust, skrifar í Morgunblaðið í dag. Það sem hann nefnir helst sem ástæðu fyrir trúverðugleikabrestinum eru viðvarandi grunsemdir um hagsmunaárekstra sem Páll segir að liggi eins og þokumistur yfir flokknum. „Tveir augljósustu hlutarnir af þessari grunsemdaþoku eru auðvitað annars vegar þær stöðugu ásakanir sem formaður flokksins má þola vegna eigin umsvifa og fjölskyldu hans í viðskiptalífinu – afskrifta og aflandsreikninga – og svo fullyrðingar um skaðlega hagsmunaárekstra vegna náinna tengsla sjávarútvegsráðherra við Samherja.“
Lítill og einsleitur hópur ræður ferðinni
Tilefni greinar Páls er það fylgistap sem flokkurinn hefur upplifað á síðasta rúma áratug. Hann bendir á að þrír flokksformenn hafi leitt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum fjórar kosningar á síðustu 50 árum. Þeir tveir fyrstu, Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson, hafi leitt tryggt flokknum 37,3 og 37,5 prósent fylgi að meðaltali í þessum kosningum. Sá þriðji, Bjarni Benediktsson sitjandi formaður, hafi tryggt flokknum 26,2 prósent fylgi að meðaltali í þeim fjórum kosningum sem hann hafi leitt hann í gegnum. Versta niðurstaðan var 2009 þegar 23,7 prósent landsmanna kusu flokkinn. Það er nánast sama fylgi og hann mælist með í könnunum nú.
Páll bendir líka á að ánægja með ráðherra flokksins mælist að jafnaði minni en með ráðherrar annarra stjórnarflokka, þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærsti flokkurinn í ríkisstjórninni. Kristján Þór mælist til að mynda langóvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar. Alls sögðust 61 prósent landsmanna vera óánægð með hans störf í nýlegri könnun Gallup og einungis ellefu prósent sögðust vera ánægð með hann.
Ástæðurnar séu margrar. Sumir telji að þær eigi rætur sínar að rekja í bankahruninu, Icesave-deilunni eða átökum um þriðja orkupakkann. Auk þess hafi flokkurinn klofnað, fyrst þegar frjálslyndir fóru út úr honum í Viðreisn, og síðar þegar íhaldssamari flokksmenn gengu til liðs við Miðflokkinn.
Niðurstaða Páls, sem hann setur fram í greininni, er sú að ásamt klofning sé meginvandi Sjálfstæðisflokksins víðtækur trúverðugleikabrestur. Forystumenn flokksins verði að hvetja til og taka þátt í opnu og gagnrýnu samtali – innan flokksins og út á við – ef flokkurinn á að endurheimta stöðuna sem breiðfylking borgaralegra afla á Íslandi. „Faðmur flokksins hefur verið að þrengjast og einsleitni að aukast. Allt of lítill og allt of einsleitur hópur ræður í raun ferðinni í Sjálfstæðisflokknum frá degi til dags. Þannig hefur flokkurinn ekki lengur eins breiða skírskotun og fyrrum – og margir sem áður studdu flokkinn finna ekki lengur samhljóm með honum. En þetta væri efni í aðra grein. En Sjálfstæðisflokkurinn er í dauðafæri til að brjótast út úr þessari stöðu. Þátttaka yfir 20 þúsund manns í prófkjörum flokksins nýverið, í öllum kjördæmum landsins, sýnir að jarðvegurinn er fyrir hendi og hann er frjór. Það þarf bara að sá í akurinn og hirða um hann.“