Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, ákvað á fundi sínum í kvöld að leggja fram tillögu um að boða til almenns prófkjörs fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, sem fara fram í maí. Tillagan verður lögð fyrir fulltrúaráðsfund í flokknum sem haldinn verður í Valhöll eftir viku, 10. febrúar. Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins þarf að samþykkja leiðina til að hún verði að veruleika með einföldum meirihluta atkvæða.
Verði hún samþykkt mun prófkjörið fara fram 12. mars næstkomandi og kjörskrá afmörkuð við flokksskrá tveimur vikum fyrir kjördag.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verði sem send var út í kvöld.
Um viðsnúning er að ræða. Á fundi hjá Verði, sem fram fór þann 15. desember, var samþykkt tillaga um að halda svokallað leiðtogaprófkjör í Reykjavík eins og fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018.
Einungis einn frambjóðandi hefur enn sem komið er gefið kost á sér til að leiða listann, en það er Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi. Hún hefur sagt að hún vonaðist eftir því að flokkurinn myndi halda opið prófkjör um efstu sæti á lista. Eyþór Arnalds oddviti flokksins í Reykjavík hætti við framboð sitt skömmu eftir að Vörður samþykkti að leggja til leiðtogaprófkjörið. Honum leist vel á að halda leiðtogaprófkjör, eftir að sú tillaga kom fram.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi flokksins, hefur sagt að hún sé að íhuga að sækjast eftir leiðtogasæti en er ekki búin að taka endanlega ákvörðun.