Sjálfstæðisflokkurinn myndi missa tvo borgarfulltrúa, Viðreisn einn og Miðflokkurinn þurrkast út, samkvæmt fyrstu skoðanakönnuninni sem birtist í þeirri kosningabaráttu sem nú er í startholunum í Reykjavíkurborg.
Samkvæmt könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis, sem birt var í kvöld, myndu Píratar hins vegar bæta við sig tveimur borgarfulltrúum, Vinstri græn einum og Framsókn myndi ná inn einum manni. Könnunin var framkvæmd í lok janúar og byrjun febrúar, samkvæmt því sem segir í umfjöllun Vísis.
Samfylking stærst og Píratar bæta tveimur við sig
Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn í borginni með 27,9 prósent fylgi og 7 borgarfulltrúa, rétt eins og í dag. Þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 21,9 prósent fylgi, sem er 9 prósentum undir kjörfylgi flokksins í sveitarstjórnarkosningunum 2018.
Píratar mælast á töluverðu skriði, mælast með 14,8 prósent fylgi og myndu samkvæmt því bæta við sig tveimur borgarfulltrúum og fá fjóra menn kjörna. Allir aðrir flokkar mælast undir tíu prósentum, en Vinstri græn mælast með 8,5 prósent fylgi og myndi bæta við sig einum borgarfulltrúa.
Framsókn, sem á engan borgarfulltrúa í dag mælist svo með 6,5 prósent fylgi, Viðreisn 5,9 prósent, Sósíalistaflokkurinn 5,5 prósent og Flokkur fólksins 5,4 prósent. Það myndi skila hverjum þessara flokka einum borgarfulltrúa.
Miðflokkurinn, sem boðaði í vikunni að hann myndi halda prófkjör í Reykjavík, mælist svo með 3,5 prósenta fylgi sem myndi ekki duga til að fá mann kjörinn inn í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem 23 kjörnir fulltrúar eiga sæti.
Síðasta könnun í mars 2021
Í síðustu birtu könnun á fylgi flokka í Reykjavíkurborg, sem Gallup gerði og var birt 4. mars í fyrra, mældist Samfylkingin rétt eins og nú með mest fylgi allra flokka í borginni. Borgarstjórnarflokkur flokksins mældist þá með 26,4 prósent fylgi en Samfylkingin fékk 25,9 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum 2018.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem var stærsti flokkurinn í borginni eftir síðustu kosningar með 30,8 prósent fylgi, mældist með 25,2 prósent í mars í fyrra og dalar því enn síðan þá, samkvæmt þessari nýju könnun frá Maskínu.
Núverandi leiðtogi flokksins í borginni, Eyþórs Arnalds, sagði við Kjarnann fyrir nokkrum vikum síðan að hann teldi að flokkurinn myndi bæta verulega við sig frá síðustu kosningum og verða sá langstærsti í Reykjavík. Sagðist hann hafa „tilfinningu“ fyrir 35-36 prósenta fylgi flokksins.