Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 2,6 prósentustigum milli mánaða og mælist langstærsti flokkur landsins samkvæmt nýrri könnun Maskínu með 24,5 prósent fylgi. Píratar eru hins vegar sá flokkur sem bætir mest við sig milli mánaða og fara úr 10,3 í 13,7 prósent, sem er fylgisaukning upp á 3,4 prósentustig frá því í febrúar.
Þá bætir Framsóknarflokkurinn við sig 0,3 prósentustigum og mælist með 17,2 prósent fylgi og Miðflokkurinn fer úr 3,9 í 4,3 prósent, sem myndi sennilegast ekki nægja honum til að ná inn manni.
Aðrir flokkar dala milli mánaða. Mest hrynur af fylgi Vinstri grænna, flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, en það lækkar um 3,6 prósentustig niður í 9,3 prósent. Það þýðir að Vinstri græn hafa tapað um 28 prósent af fylgi sínu á einum mánuði og flokkurinn mælist sem stendur fimmti stærsti flokkur landsins. Samfylkingin fer úr 13,4 í 12,1 prósent og tapar 1,3 prósentustigi milli kannana.
Sameiginlegt fylgi stjórnarandstöðuflokka eykst
Stjórnarflokkarnir þrír voru með 51,7 prósent samanlagt fylgi í febrúar en fengu 54,3 prósent atkvæða í kosningunum í fyrrahaust. Nú mælist fylgið hins vegar 51 prósent og lækkar því milli mánaða.
Sjálfstæðisflokkurinn er eini stjórnarflokkurinn sem mælist yfir kjörfylgi, en einungis um 0,1 prósentustig. Framsóknarflokkurinn mælist með 0,1 prósentustigi minna fylgi en hann fékk í kosningasigri sínum í haust en Vinstri græn mælast 3,3 prósentustigum undir kjörfylgi.
Stjórnarandstöðuflokkarnir fimm mælast með 45,7 prósent fylgi. Píratar hafa bætt mest við sig það sem af er kjörtímabili eða 5,1 prósentustigi. Það þýðir að fylgi Pírata mælist nú 59 prósent meira en það var þegar síðast var kosið.
Þrír stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir samkvæmt könnun Maskínu: Píratar, Samfylking og Viðreisn, mælast samanlagt með 34,3 prósent fylgi en fengu 26,8 prósent í kosningunum í september. Þeir hafa því bætt við sig 28 prósent fylgi á rúmum fimm mánuðum.
Píratar stórir í Reykjavík
Sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí næstkomandi. Í könnun Maskínu er fylgi flokka brotið niður eftir búsetu. Þar kemur fram að Í höfuðborginni Reykjavík, þar sem stefnir í harða baráttu um borgarstjórnarmeirihluta, mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 20,6 prósent fylgi. Píratar mælast hins vegar nánast jafn stórir, en 19,9 prósent borgarbúa segjast styðja þá. Samfylkingin nýtur stuðnings 17,5 prósent íbúa Reykjavíkur, Framsóknarflokkurinn 10,4 prósent, Vinstri græn 9,3 prósent og Viðreisn 8,9 prósent. Þá segjast 4,5 prósent borgarbúa að þeir myndu kjósa Sósíalistaflokkinn ef kosið yrði til þings í dag en 3,1 prósent Miðflokkinn.
Vert er að taka fram að könnun Maskínu var um afstöðu fólks til framboðs stjórnmálaflokka til Alþingis, ekki borgarstjórnar.
Könnunin fór fram dagana 17. febrúar ti l9. mars 2022 og voru 2.333 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.