Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins með 23,1 prósent fylgi í nýjustu könnun MMR. Fylgi flokksins hefur aukist um rúm tvö prósentustig frá síðustu könnun. Samfylkingin bætir líka umtalsvert við sig og mælist nú með 15,4 prósent fylgi. Sömu sögu er að segja af Pírötum en 13,2 prósent aðspurðra segjast styðja þá en fylgi þeirra mældist 11,5 prósent fyrir mánuði.
Sá flokkur sem tapar mestu fylgi milli mánaða er Miðflokkurinn, sem mælist nú með 6,9 prósent stuðning. Það er um fjórðungi minna en fylgi hans mældist fyrir mánuði síðan. Fylgi flokksins hefur ekki mælst lægra í könnunum MMR síðan skömmu eftir Klausturmálið svokallaða, eða í febrúar 2019.
Framsóknarflokkurinn dalar líka á milli mánaða og mælist með 11,5 prósent fylgi. Vinstri græn tapa sömuleiðis milli mánaða en 10,1 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa flokk forsætisráðherra.
Fylgi Viðreisnar stendur í stað í tíu prósentum, Flokkur fólksins mælist með 4,7 prósent fylgi og alls segjast fjögur prósent aðspurðra í könnuninni ætla að kjósa Sósíalistaflokk Íslands.
Vinstri græn tapa mestu
Ef núverandi staða samkvæmt könnun MMR yrði niðurstaða kosninga væri ríkisstjórnin fallin. Samanlagt fylgi þeirra er nú 44,7 prósent, eða 8,1 prósentustigi minna en það var síðast þegar kosið var.
Eini stjórnarflokkurinn sem mælist með meira fylgi en hann fékk haustið 2017 er Framsóknarflokkurinn, sem mælist með 0,8 prósentustigum meira fylgi nú en hann fékk þá. Vert er að taka fram að niðurstaða Framsóknar í október 2017 var versta kosningarniðurstaða í sögu flokksins.
Stóri taparinn á ríkisstjórnarsamstarfinu miðað við stöðu mála samkvæmt könnun MMR eru þó Vinstri græn, en flokkurinn hefur tapað 40 prósent af fylgi sínu og mælist nú fimmti stærsti flokkur landsins, 0,1 prósentustigi stærri en Viðreisn sem situr í sjötta sætinu.
Þrír stjórnarandstöðuflokkar bætt umtalsvert við sig
Píratar og Sósíalistaflokkur Íslands eru þeir flokkar sem hafa bætt við sig mestu fylgi á kjörtímabilinu fram til þessa, eða sitthvorum fjórum prósentustigunum. Sósíalistarnir eru að bjóða fram í fyrsta sinn og myndu ekki ná inn á þing með það fylgi sem þeir mælast með nú, eða fjögur prósent.
Píratar hafa hins vegar farið úr 9,2 í 13,2 prósent og mælast þriðji stærsti flokkur landsins.
Aðrir flokkar sem hafa bætt við sig fylgi á kjörtímabilinu úr stjórnarandstöðunni eru Samfylkingin og Viðreisn, sem hafa báðir stækkað um 3,3 prósentustig.
Samanlagt fylgi Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar mælist nú 38,6 prósent, eða 10,6 prósentustigum meira en það var haustið 2017.
Þeir flokkar stjórnarandstöðunnar sem hafa tapað fylgi á kjörtímabilinu eru Miðflokkurinn, sem mælist nú með fjórum prósentustigum minna fylgi en 2017, og Flokkur fólksins, sem mælist með 2,2 prósentustigum minna fylgi.
Könnunin var framkvæmd 29. mars - 7. apríl 2021 og var heildarfjöldi svarenda 940 einstaklingar, 18 ára og eldri.