Kosið verður um leiðtoga lista Sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík að óbreyttu. Það er sama leið og flokkurinn fór fyrir kosningarnar 2018 þegar Eyþór Arnalds var valinn til að leiða lista flokksins. Þetta var ákveðið á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaga í Reykjavík, í kvöld.
Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins þarf að samþykkja leiðina til að hún verði að veruleika með 2/3 hluta atkvæða. Gangi það eftir verður kosið í kjörnefnd til að fylla önnur sæti á listanum.
Eyþór hefur gefið það út að hann stefni að endurkjöri að óbreyttu og Hildur Björnsdóttir, sem var í öðru sæti á lista flokksins fyrir síðustu kosningar, hefur þegar tilkynnt að hún skori hann á hólm. Enginn annar hefur sem stendur tilkynnt framboð í leiðtogasætið.
Árið 2018 sóttust, ásamt Eyþóri þau Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, þáverandi borgarfulltrúar, Vilhjálmur Bjarnason fyrrverandi Alþingismaður og Viðar Guðjohnsen leigusali eftir því að leiða listann.
Enginn þeirra sem lutu í lægra haldi fyrir Eyþóri fékk sæti á lista flokksins í kjölfarið og eini sitjandi borgarfulltrúinn sem sat í efstu sætunum var Marta Guðjónsdóttir.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30,8 prósent atkvæða í þeim kosningum og átta borgarfulltrúa kjörna. Fyrir vikið varð hann stærsti flokkurinn í borginni á ný. Það dugði þó ekki til þar sem Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn mynduðu meirihluta og Dagur B. Eggertsson hélt áfram sem borgarstjóri.