Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19,8 prósenta fylgi í nýjum þjóðarpúlsi Gallup fyrir aprílmánuð, en þetta er lægsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnun fyrirtækisins.
Áður hafði flokkurinn farið lægst í 20,6 prósent í könnunum Gallup, en það var í nóvember 2008. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í síðustu alþingiskosningum.
Þrátt fyrir að hafa aldrei mælst minni er Sjálfstæðisflokkurinn þó með mest fylgi allra flokka í þessari nýju könnun. Framsóknarflokkurinn er næst stærstur og mælist með 15,6 prósenta fylgi, sem er tæpum tveimur prósentustigum frá kjörfylgi flokksins.
Píratar mælast þriðji stærsti flokkurinn með 14,5 prósent fylgi og Samfylkingin kemur í kjölfarið með 13,7 prósent fylgi. Píratar fengu 8,6 prósent atkvæða og Samfylkingin 9,9 prósent í kosningunum síðasta haust.
Vinstri græn mælast með 10,1 prósent fylgi hjá Gallup, sem er 2,5 prósentustigum minna en kjörfylgi flokksins í síðustu kosningum. Næst kemur Viðreisn með 9,6 prósent fylgi, en flokkurinn fékk 8,3 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Flokkur fólksins mælist með 7,7 prósent, rúmu prósenti undir kjörfylgi. Sósíalistaflokkurinn mælist með 4,6 prósenta fylgi og Miðflokkurinn með 4,1 prósent.
Stuðningur við ríkisstjórnina ekki minni síðan 2020
Stuðningurinn við ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hrapar um heil 14 prósentustig á milli mánaða í þessari könnun og segjast nú 47,4 prósent styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, samanborið við 60,9 prósent aðspurðra í marsmánuði.
Ekki hafa færri sagst styðja ríkisstjórnina frá því í janúar árið 2020, en þá mældist stuðningurinn við stjórnina 46,5 prósent. Síðan bar kórónuveirufaraldurinn dyra og stuðningur við stjórnvöld stórjókst og hefur verið um og yfir 60 prósentum undanfarin tvö ár – allt þar til nú.