Sjálfstæðisflokkurinn, sem haldið hefur áberandi prófkjör undanfarið, bætir vel við sig í nýjustu könnun MMR og mælist nú með 27 prósent fylgi. Það er 2,4 prósentustigum meira fylgi en hann fékk í könnun fyrirtækisins sem birt var í byrjun mánaðar. Fylgið er 1,8 prósentustigi yfir kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins og hann hefur einungis þrívegis mælst með meira fylgi í könnunum MMR á þessu kjörtímabili.
Hann er sem stendur eini stjórnarflokkurinn sem mælist með meira fylgi en hann fékk í síðustu kosningum. Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, bæta við sig 1,3 prósentustigi milli kannana og eru með 12,4 prósent. Það er samt sem áður 4,5 prósentustigi undir því sem flokkurinn fékk í kosningunum haustið 2017. Framsóknarflokkurinn tapar miklu milli kannana, fer úr 12,5 prósent í 8,8 prósent. Það þýðir að 30 prósent færri sögðust ætla að kjósa flokkinn nú en í könnun MMR sem birt var 1. júní. Framsókn mælist nú fimmti stærsti flokkurinn á þingi.
Píratar standa nokkurn veginn í stað milli kannana og mælast með 13,1 prósent fylgi, sem myndi þýða að þeir yrðu næst stærsti flokkurinn á þingi á eftir Sjálfstæðisflokki. Samfylkingin er sömuleiðis föst á svipuðum slóðum og hún hefur verið undanfarið með 11,2 prósent fylgi, sem er tæpu prósentustigi minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2017.
Hástökkvarinn á meðal stjórnarandstöðuflokka er Flokkur fólksins, sem fer úr 2,8 prósent fylgi í byrjun mánaðar í 5,5 prósent. Flokkurinn hennar Ingu Sæland, sem hefur verið afar duglegur við að auglýsa sig undanfarið, fékk 6,9 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Miðflokkurinn bætir lítillega við sig og mælist með 7,3 prósent fylgi, sem er þriðjungi minna fylgi en flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Sósíalistaflokkur Íslands mælist áfram inni á þingi og stendur nánast í stað milli kannana með 5,3 prósent fylgi. Það þýðir að ef niðurstaða könnunar MMR yrði niðurstaða kosninga þá yrðu níu flokkar á Alþingi eftir næstu kosningar, sem fara fram 25. september næstkomandi.
Könnunin var framkvæmd 4. - 14. júní 2021 og var heildarfjöldi svarenda 973 einstaklingar, 18 ára og eldri.
Miðað við niðurstöðu könnunarinnar er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur líkast til fallin. Flokkarnir sem að henni standa mælast með 48,2 prósent fylgi sem myndi tryggja þeim 31 þingmann, einum færri en til þarf svo hægt sé að mynda meirihlutastjórn. Það stendur þó afar tæpt að einn þingmaður til viðbótar myndi falla þeim í skaut.
Engin önnur þriggja flokka stjórn er í myndinni í ljósi þess að bæði Píratar og Samfylking hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Ekki væri hægt að mynda fjögurra flokka stjórn án aðkomu Sjálfstæðisflokks. Þeir flokkar sem vilja ekki vinna með honum þyrftu því að setja saman fimm flokka stjórn til að ná því markmiði sínu að óbreyttu.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 53,7 prósent og hefur aukist um rúm þrjú prósentustig í mánuðinum.