Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 5,6 prósentustigum á milli mánaða í könnun MMR og er nú með 28,7 prósent fylgi. Það er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnun fyrirtækisins á kjörtímabilinu. Raunar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki mælst með meira fylgi frá því sumarið 2017. Annar ríkisstjórnarflokkur, Vinstri græn, mælast einnig með umtalsvert hærra fylgi en fyrir mánuði eða 12,9 prósent. Framsóknarflokkurinn dalar hins vegar um prósentustig milli mánaða og mælist með 10,5 prósent.
Yrði þetta niðurstaða kosninga myndi ríkisstjórnin halda velli algjörlega óháð því hvernig önnur atkvæði myndu falla og hversu stór hluti þeirra myndi falla niður dauð. Hún mælist með 52,1 prósent sameiginlegt fylgi sem er ekki langt frá þeim stuðningi sem mælist við ríkisstjórnina, en hann er nú 56,2 prósent.
Píratar tapa 3,6 prósentustigum milli mánaða og mælast með 9,6 prósent fylgi og Viðreisn mælist með 8,8 prósent. Samanlagt fylgi þessara þriggja flokka, sem hefur oft mælst um 38 prósent á kjörtímabilinu, er nú einungis 29,7 prósent. Það mjög svipað og þeir fengu upp úr kjörkössunum 2017 þegar 28 prósent landsmanna kusu þá.
Sósíalistaflokkur Íslands fær nú sína bestu mælingu frá upphafi í könnunum MMR og mælist með sex prósent fylgi. Flokkurinn er með meira fylgi en Miðflokkurinn sem mælist með minnsta fylgi sitt á kjörtímabilinu með 5,6 prósent. Sá flokkur er því við það að detta út af þingi miðað við þessa niðurstöðu.
Af þeim flokkum sem eru með fulltrúa inni á þingi nú er Flokkur fólksins sá eini sem næði líkast til ekki inn kjördæmakjörnum manni, en 4,8 prósent aðspurðra segjast styðja þann flokk.
Könnunin var framkvæmd 21. - 28. apríl 2021 og var heildarfjöldi svarenda 946 einstaklingar, 18 ára og eldri.