Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu það til, á borgarstjórnarfundi á þriðjudag, að smáhýsin sem samþykkt hefur verið að setja upp á auðu svæði á milli Engjavegar og Suðurlandsbrautar í Laugardal yrðu ekki sett niður þar, heldur úti í Örfirisey.
Þetta lögðu borgarfulltrúar flokksins til undir umræðum um nýjustu fundargerðir borgarráðs, en borgarráð samþykkti þann 7. október síðastliðinn nýtt deiliskipulag sem heimilar að fimm smáhýsum fyrir skjólstæðinga velferðarsviðs borgarinnar verði komið fyrir í Laugardalnum.
Tillaga sjálfstæðismanna laut að því að það yrði skoðað að koma smáhýsunum heldur fyrir á svæði Faxaflóahafna úti á Granda, nánar tiltekið þar sem hverfisbækistöð Vesturbæjar stendur – og fjögur önnur smáhýsi.
„Með fjölgun smáhýsanna í Örfirisey skapast grundvöllur til að samnýta starfsmann til að hafa umsjón með húsnæðinu og styðja við íbúa þeirra til sjálfstæðs lífs,“ sagði í tillögu borgarfulltrúanna.
Þessari breytingatillögu við fundargerð borgarráðs var vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins, en borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Umrædd smáhýsi eru hluti af hugmyndafræðinni „Húsnæði fyrst“ sem er á vegum velferðarsviðs borgarinnar og þau eru hugsuð til að hjálpa fólki sem hefur verið í heimilisleysi og er með miklar þjónustuþarfir.
Fimm smáhýsi af nákvæmlega þessari gerð hafa þegar verið tekin í notkun í Gufunesi, en erfiðlega hefur gengið að koma þeim fyrir á öðrum stöðum í borginni, eins og rakið var í forsíðufrétt Fréttablaðsins fyrr í vikunni.
Þar sagði frá því að tíu hús af þessari gerð hafi staðið óhreyfð í Skerjafirði í eitt og hálft ár og haft var eftir Hólmfríði Helgu Sigurðarsdóttur upplýsingafulltrúa hjá Reykjavíkurborg að erfiðlega hefði gengið að festa lóðir fyrir þau, þrátt fyrir að umhverfis- og skipulagssvið hefði unnið að því í meira en tvö ár.
„Það hefur gengið hægar en vonir stóðu til um, meðal annars vegna andstöðu íbúa og fyrirtækja í mörgum hverfum,“ sagði Hólmfríður Helga og Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs borgarinnar, sagði að umræðan um smáhýsin hefði „litast af nokkrum fordómum“ og það hefði haft áhrif á framgang verkefnisins.
Andstaða – en líka stuðningur
Í umsögnum ýmissa aðila um deiliskipulag vegna smáhýsanna sem til stendur að setja niður í Laugardalnum var tekið fram að umsagnaraðila þætti verkefnið mikilvægt, en gerðar voru athugasemdir við staðsetninguna. Meðal annars var stungið upp á því að smáhýsi yrðu sett niður í Geldinganesi, Grafarvogi, miðborg, Vesturbæ, Breiðholti og Sundahafnarsvæðinu frekar en í Laugardalnum.
Svipað hefur verið uppi á teningnum í tengslum við smáhýsi af sömu gerð sem samþykkt hefur verið að setja upp á Stórhöfða og í Hlíðahverfi. Fólk vill gjarnan sjá úrræði af þessu tagi sett upp af yfirvöldum – en bara helst ekki þar sem það sjálft býr eða er með rekstur.
Í umræðum á netinu á meðal íbúa í Laugardalnum hefur þó ekki bara borið á gagnrýni, heldur hefur að minnsta kosti hluti íbúa í hverfinu lýst ánægju með áformin. Íþróttafélögin í Laugardalnum hafa einnig fengið gagnrýni fyrir að lýsa sig andsnúna staðsetningu smáhýsanna í umsögnum við deiliskipulagið.
Í Facebook-hópi íbúa í Laugarneshverfi sögðu allnokkrir íbúar og foreldrar barna sem æfa hjá félögunum að umsagnir íþróttafélaganna væru þeim vonbrigði.
„Því miður halda margir að fólk með fíknsjúkdóma og/eða geðsjúkdóma sé ofbeldisfyllra en aðrir. Þarna gafst íþróttafélögunum frábært tækifæri til að eiga uppbyggilegt samtal við bæði hverfasamfélagið, börnin sem æfa hjá þeim og foreldra þeirra um það hvernig við getum öll búið saman og hvernig hægt er að slá á ótta og fordóma með fræðslu og samtali, en þau kjósa í staðinn að halda sig við úreltar og skaðlegar staðalmyndir og fordóma. Sem íbúa í hverfinu eru mér það mikil vonbrigði, þótt ég eigi ekki barn sem æfir hjá þessum félögum,“ sagði einn íbúi.