Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra viðurkennir að hafa gert mistök við áætlaðan flutning sinn á Fiskistofu til Akureyrar. Sigurður Ingi sagðist í kvöldfréttum RÚV í kvöld vera sammála áliti umboðsmanns Alþingis og enginn sé yfir það hafinn að læra af verkum sínum.
Umboðsmaður Alþingis gagnrýndi framgöngu ráðherrans vegna málsins í áliti sínu sem gert var opinbert í gær. Sagði umboðsmaður að áform hans hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður tekur ekki afstöðu til lögmætis ákvörðunar ráðherra, og hvaða réttaráhrif yfirlýsingar og bréf hans um flutning Fiskistofu kann að hafa á hagsmuni starfsmanna stofnunarinnar. Það sé dómstóla að meta.
„Ja, ég tek undir með umboðsmanni um að betur hefði mátt standa að ýmsum þáttum, enda hef ég sagt það áður. Ég taldi að ég væri að gera hlutina eins og best væri, en umboðsmaður hefur nú sent ráðuneytinu álit, eins og þú nefnir, hvernig gera má betur og ég er sammála honum um það. Það er enginn yfir það hafinn að læra af því sem hann hefur gert og reyna að gera betur,“ segir Sigurður Ingi.
Í samtali við RÚV sagði Sigurður Ingi að á næstu dögum verði farið vel yfir álit umboðsmanns með starfsmönnum ráðuneytisins. Reynt verði að koma til móts við tilmæli umboðsmanns.
Umboðsmaður gagnrýninn á ráðherra
Í áliti umboðsmanns frá því í gær segir: „Með tilliti til þess eftirlits sem umboðsmanni Alþingis er samkvæmt lögum ætlað að hafa með stjórnsýslunni tel ég hins vegar tilefni til að lýsa þeirri afstöðu minni að yfirlýsingar og bréf ráðherra sem beint var til starfsmanna Fiskistofu og þar með hvernig staðið var að upplýsingagjöf um þetta mál gagnvart þeim af hálfu ráðherra, þ.á.m. um hvaða ákvörðun hafi verið tekin í raun um flutninginn, hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.“
Þá gagnrýnir umboðsmaður sjávarútvegsráðherra fyrir vinnubrögð hans í málinu. „Þá er það álit mitt að það hafi ekki samrýmst þeim skyldum ráðherra sem leiða af (lögum um Stjórnarráð Íslands, að láta hjá líða að fá um það ráðgjöf innan ráðuneytisins eða með öðrum hætti hvort gildandi lagaheimildir stæðu til þess að ráðherra gæti tekið ákvörðun um flutning höfuðstöðva Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar áður en hann kynnti starfsmönnum Fiskistofu málið.“