Heilbrigðisráðherra mun skipa sjö manna stjórn yfir Landspítala, til tveggja ára í senn, samkvæmt frumvarpsdrögum sem lögð hafa verið fram í samráðsgátt stjórnvalda. Skipun stjórnar yfir Landspítala var á meðal þeirra mála sem ákveðið var að ganga í, í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum, sem samin voru í heilbrigðisráðuneytinu, skulu tveir stjórnarmenn hafa sérþekkingu á rekstri og áætlanagerð og tveir sérþekkingu á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði eða menntun heilbrigðisstétta. Til viðbótar skal skipa tvo stjórnarmenn „sem fulltrúa starfsmanna með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar“
Hægt verði að kalla nýtt fólk inn með nýjum verkefnum
Í greinargerð með drögunum er þess getið að tvö ár séu „nokkuð stuttur“ skipunartími í stjórn sem þess, en einnig að áherslur varðandi stjórn spítalans geti breyst nökkuð hratt talið og því sé „talið mikilvægt að hægt verði að skipa í stjórnina nokkuð ört nýja einstaklinga með fagþekkingu á því áherslusviði sem helst stendur til að vinna að hverju sinni“.
Tekið er dæmi af því að nú standi yfir innleiðing á nýju fjármögnunarkerfi fyrir spítalann, framleiðslutengdri fjármögnun, og því megi ætla að fagþekking á slíkri fjármögnun sé mikilvæg á næstu árum, en þegar þeirri innleiðingu verði að mestu lokið, á næstu 1-2 árum, verði fremur þörf á sérþekkingu á öðrum sviðum.
Hlutverk stjórnarinnar á að vera það að marka Landspítala „langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra í heilbrigðismálum“ og staðfesta skipulag stofnunarinnar, árlega starfsáætlun og fjárhagsáætlun. Stjórnin skal einnig bera ábyrgð á framkvæmd innra eftirlits og taka ákvörðun um veigamikil atriði sem varða rekstur spítalans og starfsemi hans.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum skal formaður stjórnar reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi, stöðu og árangri Landspítala og sömuleiðis gera ráðherra grein fyrir veigamiklum frávikum í rekstri, rekstrarlegum eða faglegum.
„Á vissan hátt“ verið að stíga til baka
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum er rakið að með þeim breytingum sem lagðar eru til sé nú „á vissan hátt“ verið að stíga til baka í það fyrirkomulag sem var við lýði áður en Alþingi ákvað að leggja niður stjórn Landspítala með breytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu árið 2007.
Í greinargerðinni segir að talið sé að sú ákvörðun Alþingis „eigi að einhverju leyti rætur að rekja til umfangsmikilla breytinga sem gerðar voru á ríkisrekstri á áratugunum á undan.“
„Víðtækar stjórnunarheimildir voru færðar til stofnana og talið er að með aukinni dreifstýringu hafi komið fram ýmsir vankantar í stjórnsýslukerfinu. Upp höfðu komið vandamál tengd stjórnun stofnana þar sem erfitt virtist vera vegna óskýrrar ábyrgðar að greina orsök vandans og grípa til viðeigandi aðgerða. Var talið augljóst að tilfærsla stjórnunarheimilda til stofnana gæti ekki skilað tilætluðum árangri nema ljóst væri hver bæri ábyrgð á því að þeim væri beitt á árangursríkan hátt og í samræmi við heimildir. Var tilgangur breytinganna því sú að undirstrika að staða forstöðumanna heilbrigðisstofnana, þ.m.t. Landspítala, væru sú sama og almennt gilti um forstöðumenn ríkisstofnana, þ.e. að þeir bæru ótvírætt óskipta ábyrgð gagnvart ráðherra, bæði á rekstri og þjónustu sinnar stofnunar, en faglegir yfirstjórnendur bæru ábyrgð á faglegri þjónustu gagnvart forstjóra,“ segir í greinargerðinni.
Þar segir einnig að gera megi ráð fyrir að breytingar verði á hlutverki og ábyrgð forstjóra Landspítala með tilkomu nýrrar stjórnar, þó að enn muni það gilda að forstjóri Landspítalans beri ábyrgð á að stofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf.
Í frumvarpsdrögunum segir að gera megi ráð fyrir því að kostnaður vegna stjórnar spítalans verði um 20 miljónir króna árlega.