Að kvöldi 4. maí 1945 var tilkynnt á danskri rás breska ríkisútvarpsins, BBC, að Þjóðverjar hefðu lýst yfir uppgjöf í norðvesturhluta Þýskalands, Hollandi og Danmörku. Þegar þessar fréttir bárust til Danmerkur þustu landsmenn út á götur og torg borga og bæja til að fagna tíðindunum. Opinberlega var tilkynnt um uppgjöfina daginn eftir og því nefna Danir 5. maí Friðardaginn. Þá hafði hernámið staðið í fimm ár og tæpum mánuði betur.
Þjóðverjar réðust inn í Danmörku snemma morguns 9.apríl 1940. Fyrirstaðan var nánast engin og Danir gáfust upp fyrir þýska herliðinu svotil samstundis. Danska stjórnin sætti nokkurri gagnrýni fyrir að gefast upp baráttulaust og ekki síður fyrir að sýna hernámsliðinu samstarfsvilja, bæði í orði og verki öll hernámsárin. Þeir voru þó fleiri sem studdu það sjónarmið stjórnmálamanna, og konungsins Kristjáns X, að ekki hefði verið annarra kosta völ á þeim tíma.
Margir sem um þessi mál hafa fjallað í fjölmiðlum að undanförnu, vegna tímamótanna, eru á þeirri skoðun að hernámið hefði haft í för með sér meiri erfiðleika fyrir dönsku þjóðina ef stjórnin hefði ekki valið leið „samvinnu með semingi“ eins og margir hér orða það. Ólíkt mörgum öðrum þjóðhöfðingjum flúði konungurinn og fjölskylda hans ekki land og Kristján X reið daglega á hesti sínum um Kaupmannahöfn. Með því móti vildi hann sýna löndum sínum að öllu væri óhætt, þrátt fyrir ástandið.
Danir kunnu líka vel að meta þegar Adolf Hitler sendi konunginum langt bréf með heillaóskum í tilefni af 72 ára afmæli hans (26. sept. 1942) og þakkaði Kristján X kurteislega, en mjög þurrlega. Hitler trylltist af bræði yfir þessu stuttaralega svari konungsins og rak danska sendiherrann í Berlín úr landi í kjölfarið og kallaði þýska sendiherrann í Kaupmannahöfn heim. Mánuði síðar krafðist þýska hernámsstjórnin afsagnar danska forsætisráðherrans Vilhelms Buhl og við tók Erik Scavenius sem Þjóðverjar töldu sér hliðhollari. Scavenius þessi fékk fremur óblíð eftirmæli á eftirstríðsárunum en í dag er tónninn í hans garð annar. Margir sagnfræðingar nútímans telja hann hafa haldið eins vel á spilunum, fyrir hönd lands og þjóðar, og unnt var miðað við aðstæður.
Aukin andspyrna Dana og Werner Best
Haustið 1942 var skipt um yfirmann þýska hernámsliðsins, Werner Best kom í stað Cecil von Renthe-Fink. Stjórn Hitlers taldi Werner Best betur til þess fallinn að takast á við vaxandi andspyrnu heimamanna í Danmörku. Werner Best lék tveim skjöldum. Í orði kveðnu sýndi hann hörku, eins og skipanir frá Berlín mæltu fyrir um en hinsvegar lagði hann mikla áherslu á samvinnu við dönsk stjórnvöld eftir því sem kostur var.
Þjóðverjar fengu í stórum stíl landbúnaðarafurðir frá Danmörku og einnig ýmsar aðrar vörur. Werner Best var vel ljóst að harka og harðstjórn væri ekki rétta aðferðin til að stjórna Danmörku, kannski allra síst bændum. Það hefur aldrei verið sannað með beinum hætti en er þó altalað hér í Danmörku að Werner Best hafi með einhverjum hætti gert dönskum stjórnvöldum viðvart um að handtökur gyðinga í Danmörku myndu hefjast á tilteknum degi, nánar tiltekið 1. október 1943. Þetta varð til þess að langflestum gyðingum sem þá voru í landinu (tæplega átta þúsund) tókst að komast yfir til Svíþjóðar og sleppa þannig við þau örlög sem urðu hlutskipti milljóna gyðinga í öðrum löndum.
Lok hernámsins og morðið á Guðmundi Kamban
Eins og áður sagði lauk hernáminu í Danmörku formlega að morgni 5. maí 1945. Í landinu var mikil ringulreið í bland við gleðina yfir að þjóðin skyldi vera laus undan oki Þjóðverja. Lögleysisástand sögðu fjölmiðlar síðar.
Uppsalagata 20 í Kaupmannahöfn, þar sem Kamban var myrtur 5. maí 1945. Mynd: Borgþór Arngrímsson
Danskir andspyrnumenn (kölluðu sig gjarna frelsisliða) voru snemma á fótum og um hádegisbil komu þrír þeirra á Hotel-Pension Bartoli við Uppsalagötu 20 í Kaupmannahöfn. Þar bjó rithöfundurinn Guðmundur Kamban ásamt Agnete eiginkonu sinni og Sibil dóttur þeirra hjóna, þau sátu að snæðingi. Frelsisliðarnir skipuðu Guðmundi að fylgja sér, hann spurði frá hverjum sú skipun kæmi og bað um að fá að sjá handtökuskipun. Þessum orðaskiptum lauk með því að einn þremenninganna hleypti af skoti og féll rithöfundurinn í gólfið örendur.
Morðið vakti reiði á Íslandi
Fréttin um morðið á Kamban fréttist nær samstundis til Íslands og olli mikilli reiði. Íslensk stjórnvöld kröfðust rannsóknar og skýringa en svör danskra stjórnvalda voru rýr. Í orðsendingu danska utanríkisráðuneytisins er morðið harmað en ekki vikið einu orði að því að þarna var í raun um að ræða aftöku, án dóms og laga.
Danskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um morðið, sum þeirra bendluðu Kamban við þýsku nasistana og danska nasistaflokknum og eitt þeirra greindi frá því að hann hefði veitt mótspyrnu þegar átti að handtaka hann. Þótt þessar sögusagnir hefðu í öllum meginatriðum reynst rangar urðu þær þó langlífar.
Skjöldur við inngang hússins við Uppsalagötu 20. Mynd: Borgþór Arngrímsson
Guðmundur Kamban var þekktur í Danmörku og víðar í Evrópu. Hann hafði verið fastráðinn leikstjóri við Folketeatret og leikstjóri við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Hann var þó fyrst og fremst þekktur sem rithöfundur og leikskáld. Hann var alla tíð umdeildur, það gilti jafnt um skáldskap hans og störf. Stór í brotinu var sagt og lét ekki hlut sinn fyrir neinum.
Enn margt á huldu
Talsvert hefur verið ritað um morðið á Kamban, ástæður þess og, að því er virðist, afar takmarkaðar skýringar og upplýsingar danskra stjórnvalda. Þeir Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur og Sveinn Einarsson leiklistarfræðingur hafa báðir fjallað ítarlega um þessi mál. Þau skrif sem eru bæði ítarleg og fróðleg, og byggja á ítarlegri heimildavinnu, verða ekki rakin hér. Af þeim má ráða að mörgum spurningum sé enn ósvarað varðandi þetta mál.
Ljóst er að nafn Guðmundar Kambans var ekki á lista danskra stjórnvalda yfir það fólk (21 þúsund manns) sem talið var að hefði unnið með þýsku hernámsstjórninni og handtaka átti í stríðslok. Þótt skoðanir hans hafi kannski á tímabili fallið að ríkjandi viðhorfum Þjóðverja á sumum sviðum átti það við um marga aðra og ekki saknæmt, hvað þá dauðasök.
Folketeatret í Kaupmannahöfn. Kamban var fastráðinn leikstjóri þar á árunum 1922-1924. Mynd: Borgþór Arngrímsson.
Vitað er að danskir andspyrnumenn fylgdust grannt með því hverjir legðu leið sína í Dagmarshús í Kaupmannahöfn, höfuðstöðvar þýsku hernámsstjórnarinnar. Guðmundur Kamban var einn þeirra sem átti erindi í Dagmarshúsið. Erindi hans var að sækja laun sem hann fékk (föst upphæð mánaðarlega um skeið) fyrir að safna saman upplýsingum og skrifa um ætiþörunginn söl. Kamban hafði tekist að vekja áhuga þýskra á hollustu sölvanna. Þessu verki lauk Kamban ekki en í fórum Landsbókasafns er til uppkast að því ásamt ýmsum upplýsingum. Þessi gögn fékk safnið frá Gísla Jónssyni bróður Kambans. Þetta verk um sölin var eftir stríð flokkað sem launavinna, lönarbejde, og ekki saknæmt.
Hver var morðinginn?
Í bók Sveins Einarssonar „Kamban, líf hans og starf“ (2013) kemur fram að formleg lögreglurannsókn á morði Guðmundar Kambans fór aldrei fram og þær vitnaleiðslur sem fram fóru alls ófullnægjandi. Vitnisburður lögmanna Kambans var aldrei tekinn til gilds mats.
Nöfn drápsmanna Kambans hafa aldrei verið dregin fram í dagsljósið og þeir hafa aldrei þurft að standa reikningsskap gjörða sinna. Kambansmálinu er því í raun ekki lokið, sjö áratugum eftir dauða hans.
Dönskum stjórnvöldum er fullkunnugt um hver það var sem hleypti af skotinu sem batt enda á líf Guðmundar Kambans um hádegisbil 5. maí 1945. Sá mun hafa verið iðnmeistari, sem lifði í áratugi eftir að stríðinu lauk. Einn Íslendingur veit með vissu nafn þessa manns. Honum leyfist ekki að skýra frá nafni hans, né samverkamanna hans, að viðlagðri fangelsisvist.