Akbar al-Baker forstjóri Qatar Airways neitaði í dag nýlegum ásökunum þriggja bandarískra flugfélaga, um að flugfélagið í Katar njóti ríkisstyrkja. Auk þess að neita ásökunum American Airlines, United og Delta, sakaði al-Baker síðastnefnda félagið um að menga háloftin með því að fljúga gömlum „drasl“ flugvélum. Fréttavefurinn NewsAsia greinir frá málinu.
Með ummælunum þykir víst að forstjóri Qatar Airways hafi aukið enn á spennuna sem ríkir milli bandarískra flugfélaga og flugfélaga við Persaflóa.
Í samtali við fjölmiðla í Doha sagði Akbar al-Baker að greiðslur stjórnvalda í Katar til flugfélagsins hafi einvörðungu verið í formi hlutafjár samkvæmt lagabókstafnum. Við sama tilefni sakaði Al-Baker forstjóra Delta um að þekkja ekki muninn á ríkisstyrk og inngreiddu hlutafé. Þá bæti hann við að flugfloti Qatar Airways væri mun umhverfisvænni en sá sem Delta flugfélagið notist við.
Fyrr í mánuðinum sökuðu forsvarsmenn þriggja áðurnefndra bandarískra flugfélaga, Qatar Airways sem og fleiri flugfélög í Sameinuðu Arabísku furstadæmunum um að hafa þegið 42 milljarða Bandaríkjadala ríkisstyrki til að verjast samkeppni frá öðrum flugfélögum.
Al-Baker, forstjóri flugfélagsins í Katar, hefur sakað Delta um að fljúga 35 ára gömlum „drasl“ flugvélum. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Delta eru 772 flugvélar félagsins að jafnaði 16,9 ára gamlar.