Hærra hlutfall aldraðra hérlendis mun auka fjárþörf hins opinbera á næstu áratugum. Verði skattar og opinber þjónusta í óbreyttri mynd má búast við viðvarandi 4 prósenta halla á opinberum fjármálum og 87 prósenta skuldahlutfall vegna öldrunar þjóðarinnar árið 2050.
Þetta kemur fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum.
Fleiri eldri borgarar
Í skýrslunni er fjallað um hækkandi meðalaldur á heimsvísu, þar sem lífslíkur hafa aukist og frjósemi hefur minnkað. Þetta leiði til hærra hlutfalls aldraðra sem standa utan vinnumarkaðarins, en samkvæmt spátölum frá Efnahags- og framfarastofnuninni gæti það hækkað úr 28 prósentum í 43 prósent á næstu þremur áratugum.
Með auknum fjölda eldri borgara er búist við að opinber útgjöld aukist, þar sem hlutfallslega fleiri muni þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og ríkissjóður muni þurfa að greiða meira í ellilífeyri. Þó sé mögulegt að aðrir útgjaldaflokkar, til dæmis útgjöld til menntamála, muni minnka, en heilt yfir er búist við aukningu í útgjöldum hins opinbera.
Með auknum útgjöldum og óbreyttum tekjum býst því ráðuneytið við því að viðvarandi halli verði á afkomu hins opinbera næstu áratugina.
Meiri halli og hærri skuldir kalla á skattahækkun
Þessi halli mun svo auka skuldir hins opinbera og mun því hlutfall þeirra af landsframleiðslu stöðugt vaxa. Innan þriggja áratuga er búist við því að hlutfallið, sem er núna tæplega 50 prósent, verði komið upp í 87 prósent árið 2050. Verði framtíðarhagvöxtur minni en gert er ráð fyrir núna megi búast við að skuldahlutfallið gæti farið upp fyrir 100 prósent þessu tímabili, segja skýrsluhöfundar.
Samkvæmt ráðuneytinu þýðir þetta að minna svigrúm verði hjá hinu opinbera til að auka fjárfestingar eða þjónustu í öðrum málaflokkum í framtíðinni, nema að skattar hækki.
Þó segir í skýrslunni að mikil óvissa sé um aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu áratugum. Lítið sé hægt að fullyrða um umfang búferlaflutninga til landsins, að hvaða marki innflytjendur verði tengdir hagsveiflunni og hvernig atvinnuþátttaka þeirra muni þróast.