Í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um lífeyrisgreiðslur sem til stendur að afgreiða fyrir þinglok er gert ráð fyrir að nýr hópur, sá sem hefur ekki átt fasteign í fimm ár, megi nota séreignarsparnað skattfrjálst til að kaupa sér húsnæði. Þá felast í frumvarpinu auknar heimildir til að ráðstafa lífeyrissparnaði til að kaupa fyrstu fasteign. Þær felast í því að fólk má nota svokallaða tilgreinda séreign í þessum tilgangi, ef nýting séreignarsparnaðar nær ekki hámarksheimildinni.
Í greinargerð sem fylgir með frumvarpinu kemur fram að heimildirnar sem frumvarpið mun heimila muni „gagnast fyrst og fremst millitekjuhópum en hafa að öllum líkindum lítil áhrif á heildarumfang úrræðisins um skattfrjálsa nýtingu lífeyrissparnaðar til fyrstu kaupa á íbúð eða íbúðamarkaðinn.“
Engin greining var þó gerð á mögulegum áhrifum á íbúðamarkaðinn við vinnslu frumvarpsins. Í greinargerðinni segir að skattfrjáls úttekt lífeyrissparnaðar gæti aukist um 0,5–1 milljarð króna á ári sem jafngildir 20 prósent af árlegri nýtingu úrræðisins til fyrstu kaupa. Skattfrjáls ráðstöfun lífeyrissparnaðar inn á íbúðalán gæti einnig aukist um 0,5–1 milljarða króna árlega. „Alls gæti skattfrjáls nýting lífeyrissparnaðar til íbúðarkaupa því aukist um 1–2 milljarða króna á ári.“
Skipt um kúrs 2014
Stjórnvöld hafa frá miðju ári 2014 heimilað þeim hluta landsmanna sem spara í séreign að nota þann sparnað til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán sín. Engin tekju- eða eignarhámörk eru á þessari heimild. Eina þakið á slíkri ráðstöfun er að einstaklingar mega mest nýta allt að 500 þúsund krónum á ári í að niðurgreiða húsnæðislánið sitt skattfrjálst með þessum hætti og hjón eða sambúðarfólk um 750 þúsund krónur. Því hærri sem tekjur eru, því meiri líkur eru á því að sú heimild verði fullnýtt.
Þessi hópur hefur alls ráðstafað 109,9 milljörðum krónum af séreignarsparnaði inn á húsnæðislánin sín frá árinu 2014. Í samantektinni sem Kjarninn hefur fengið afhenta kemur fram að hópurinn sem hefur nýtt sér úrræðið hafi alls fengið skattafslátt upp á samtals 26,8 milljarða króna fyrir að nýta séreignarsparnað sinn á þennan hátt.
Mest fer til tekjuhæstu hópanna
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) lét Hagstofu Íslands keyra sérkeyrslu til að sjá hvernig þessi skattfrjálsa nýting séreignarsparnaðar skiptist á milli tekjuhópa. Þar kom í ljós að alls 72 prósent þess skattaafsláttar sem veittur var vegna nýtingu á séreignarsparnaði árið 2020 lenti hjá þeim fimmtungi sem hafði mestar tekjur.
Sami hópur fékk tæplega helming, 47,1 prósent, af öllum beinum húsnæðisstuðningi ríkisins á árinu 2020 þegar búið er að gera ráð fyrir vaxtabótagreiðslum líka, en auk séreignarsparnaðar teljast vaxtabætur sem beinn húsnæðisstuðningur. Vaxtabótakerfið skilar stuðningi frekar til tekjulægri heimila og ungs fólks, enda vaxtabætur tekju- og eignatengdar. Sú upphæð sem miðlað er í gegnum vaxtabótakerfið dróst saman um 75 prósent frá 2013 til 2020.
Um 85 prósent af skattaafslættinum fór til þeirra 30 prósent heimila sem voru með mestar tekjur og um 57 prósent alls beins húsnæðisstuðnings lenti þar.
Miðað við skiptingu á skattafslættinum á árinu 2020, samkvæmt samantekt ASÍ, má ætla að um 8,3 milljarðar króna af skattaafslættinum sem miðlað hefur verið frá 2014 og fram í janúar 2022 hafi farið til ríkustu tíu prósenta þjóðarinnar.