Víðtæk skattalagabrot hér á landi fela í sér mikla ógn vegna hugsanlegs peningaþvættis. Einnig ýtir aukning reiðufjár í umferð, auk rúmrar löggjafar og lítils eftirlits eftir starfsemi einkahlutafyrirtækja, undir áhættuna á að peningaþvætti sé stundað á Íslandi. Þetta kemur fram í nýútgefnu áhættumati Ríkislögreglustjóra, sem kom út á fimmtudaginn.
Áhættumatið er það þriðja sem Ríkislögreglustjóri hefur gert vegna hættunar um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en embættið birti sambærilegar skýrslur árin 2017 og 2019.
Fleiri og alvarlegri skattsvik
Samkvæmt Ríkislögreglustjóra hefur málum tengdum skattalagabrotum sífellt fjölgað hjá embættinu á undanförnum árum. Í fyrra fjölgaði þeim um fjórðung, úr 482 árið 2019 í rúm 600 mál. Embættið segir einnig að upplýsingar frá Skattrannsóknarstjóra bendi til þess að málin séu alvarlegri en áður.
Meðal þeirra mála sem eru til rannsóknar eru brotahópar sem reyna að misnota virðisaukaskattskerfið með nýtingu á tilhæfulausum sölureikningum frá fyrirtækjum án eiginlegra viðskipta. Embættið segir heildarfjárhæð slíkra reikninga nema um einum milljarði króna.
Samkvæmt skýrslunni eru skattsvik alvarlegt vandamál hér á landi, meðal annars vegna þess hve auðvelt sé að drýgja slík brot. Einnig segir Ríkislögreglustjóri að viðhorf almennings til skattsvika virðist vera mildara en til annarra brota og viðurlög ekki hafa tilætluð varnaðaráhrif.
Auðvelt að koma reiðufé í umferð
Ein ástæða þess hversu auðvelt sé að framkvæma skattsvik er talin vera vegna þess hversu auðvelt sé að koma reiðufé í framkvæmd hér á landi. Til dæmis sé einfalt og ódýrt að flytja reiðufé yfir landamæri Íslands í gegnum eina af 23 tollhöfnum landsins.
Einnig gildi engar reglur um innlagnir og úttektir á reiðufé úr bönkum, nema hvað varðar hraðbanka, auk þess sem ekkert eftirlit sé með notkun reiðufjár. Samkvæmt skýrslunni hefur reiðufé í umferð aukist á síðustu árum, þrátt fyrir að dregið hafi úr notkun þess í staðgreiðsluviðskiptum hér á landi.
Þar sem reiðufé er órekjanlegt segir Ríkislögreglustjóri að auðvelt sé að koma t.d. ólögmætum ávinningi af brotastarfsemi í umferð.
Skattaundanskot og kennitöluflakk í einkahlutafélögum
Í skýrslunni segir einnig að auðvelt sé að svíkja undan skatti hérlendis þar sem tiltölulega auðvelt sé að stofna einkahlutafélag. Ekki séu skilyrði að slík félög séu í starfsemi eða rekstri og engar lagakröfur séu gerðar til eigenda þeirra. Embættið segir það einnig vera þekkta aðferð skömmu fyrir gjaldþrot einkahlutafélaga að koma svokölluðum „útfararstjórum“ í stjórn þeirra til að dylja hver fari með raunverulega stjórnun þess. Þar að auki segir Ríkisskattsstjóri það vera auðvelt að taka fjármuni úr einkahlutafélagi og ráðstafa úr sjóðum þess með sjálftöku, en slík ráðstöfun fjármuna kunni að fela í sér peningaþvætti.
Samkvæmt skýrslunni liggja einnig fyrir upplýsingar um að samhliða rekstri sumra einkahlutafélaga sé stunduð svört atvinnustarfsemi, þar sem virðisaukaskattur eða tekjuskattur sé ekki greiddur í samræmi við lög. Í þessum tilvikum hafi verið hægt að greiða minni skatt meðal annars með að oftelja kostnað eða vantelja gjöld, t.d. í tengslum við tekjur frá aflandsfélögum.
Þá er líka minnst á svokallað kennitöluflakk, þar sem fyrirtæki sem sér fram á gjaldþrot flytur eignir sínar yfir á nýja kennitölu en skilur skuldir fyrirtækisins eftir á þeirri gömlu. „Þannig
getur eigandi fyrirtækisins í raun haldið áfram að reka það án þess að greiða skuldir þess, því kröfuhafar geta aðeins gengið að þeim eignum sem skráðar eru á gömlu kennitöluna,“ segir í skýrslunni.
Fleiri þættir nefndir árið 2019
Kjarninn fjallaði um skýrsluna sem kom út árið 2019, en samkvæmt henni var einnig talin mikil ógn af skattsvikum, peningasendingum og einkahlutafélögum. Þó var talin meiri hætta á fleiri þáttum þá, t.d. á afléttingu fjármagnshafta, raunverulegum eigendum, og þjónustu lögmanna. Í nýju skýrslunni hafa þessir þættir verið teknir út eða færðir niður í áhættuflokk.